141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

62. mál
[23:14]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að ræða þingsályktunartillögu um aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusambandsins. Í tillögunni er meðal annars kveðið á um að efla beri þátttöku stjórnmála- og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands í mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

Ég vil byrja á því að segja að í prinsippinu er ég alveg sammála þessari tillögu og sem einlægur Evrópusinni get ég ekki annað en glaðst yfir því að fulltrúar þeirra flokka sem hvað harðast hafa lagst gegn áframhaldandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið skuli taka þátt í að leggja fram þingsályktunartillögu sem hvetur til náins og góðs samstarfs við það sama samband.

EES-samningurinn hefur verið okkur happadrjúgur undanfarna tvo áratugi og það er rétt sem fram kemur í greinargerð með tillögunni og nefndaráliti sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var að mæla fyrir, að við höfum ekki nýtt okkur kosti EES-samningsins sem skyldi til að gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Ég vil þó segja í þessu sambandi að ég tel mig sjálfa hafa lagt ýmislegt af mörkum í þeim efnum en á árunum 2006–2009 vann ég að því ásamt fleirum að undirbúa stofnun svokallaðs sveitarstjórnarvettvangs innan EFTA sem tók til starfa árið 2009. Hann var beinlínis settur á laggirnar til þess að koma til móts við þann lýðræðishalla sem var orðinn í íslenskum sveitarfélögum vegna þess að ekki var til vettvangur innan EFTA-strúktúrsins fyrir sveitarstjórnarmenn og af mörgum var talið mjög brýnt að bæta úr því.

Þessi sveitarstjórnarvettvangur EFTA sem var stofnaður árið 2010 er skipaður sveitarstjórnarmönnum og frá Íslandi eru sex kjörnir fulltrúar úr sveitarfélögum alls staðar á landinu. Þeir taka þátt í starfi þessa vettvangs og veit ég fyrir víst að þeim hefur tekist að halda til haga ýmsum hagsmunum íslenskra sveitarfélaga með því að koma þeim á framfæri við Evrópusambandið í gegnum héraðanefnd Evrópusambandsins. Sveitarstjórnarmenn tala við sveitarstjórnarmenn á vettvangi Evrópusambandsins og koma hagsmunum íslenskra sveitarfélaga þar á framfæri.

Þetta er ágætisdæmi um það hvaða aðferðum við beitum til þess að efla áhrif okkar í samstarfi við Evrópusambandið, en á stundum má segja að þetta sé eins og að fara allan hringinn þó að menn ætli bara að skreppa frá Reykjavík upp á Skaga, þetta er mikill útúrdúr. Í stað þess að vera aðilar að Evrópusambandinu og koma sjónarmiðum okkar á framfæri beint förum við í gegnum EES-samninginn og ýmsa farvegi í þeim efnum.

Ég er eins og áður segir, virðulegur forseti, mjög hlynnt því að efla samstarf Íslands við Evrópusambandið. EES-samningurinn er sá vettvangur sem við höfum til þess í dag og hann eigum við að nýta sem best við getum. Ég er algjörlega ósammála því sem fram kemur í fylgiskjali I við þingsályktunartillöguna sem um ræðir þar sem vísað er í niðurstöður og tillögur nefndar frá árinu 2007 um tengsl Íslands við Evrópusambandið, þá nefnd sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi áðan og var undir forsæti Björns Bjarnasonar. Þar segir meðal annars, virðulegur forseti:

„Nefndin telur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) hafi staðist tímans tönn og að hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggjast á og rétt er að þróa áfram. Breytingar innan Evrópusambandsins, aukið vægi þings þess og fjölgun aðildarríkja hafa ekki hróflað við EES-samningnum.“

Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í desember sl. kemur fram að EES-samningurinn hafi dugað báðum aðilum samningsins vel til þessa, bæði Evrópusambandinu og EES-ríkjunum. En eins og fram kemur í áliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eru blikur á lofti vegna þess að aðildarríki Evrópusambandsins eru orðin þreytt á þessum samningi og kannski mest á afstöðu EES-ríkjanna að þau geti staðið fyrir utan Evrópusambandið og fleytt rjómann af sambandinu eða starfinu sem þar fer fram án þess að taka þátt í því á ábyrgan hátt.

Annað mál sem varpar aðeins ljósi á hvernig EES-samningurinn hefur breyst, meðal annars með breyttri stjórnskipan Evrópusambandsins, eru breytingar á þátttöku EES-ríkjanna við stefnumótun í menntamálum, rannsóknum, þróun og vísindamálum. Stefnumótun Evrópusambandsins á sér sífellt meira stað á vegum ráðsins og þingsins og er þar með komið úr höndum framkvæmdastjórnarinnar, sem þýðir að EES-ríkin fá ekki aðgang að stefnumótun eins og var lengst framan af frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1993 og fram til ársins 2008 eða 2009. Þá höfðu Íslendingar greiðan aðgang til dæmis að stefnumótun í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og þróun, en nú hefur orðið breyting á.

Í þessu sambandi má nefna að nýjar reglur hafa tekið gildi um samráð við gerð og útfærslu á reglum og reglugerðum sem byggja á tilskipunum. Í stuttu máli felst breytingin í því að við gerð tilskipana er ákveðið að hvaða leyti framkvæmdastjórninni er heimilt að setja nánari fyrirmæli í reglur og reglugerðir og hvernig henni er skylt að hafa samráð og fá samþykki ráðsins. Af þessu leiðir að sífellt fleiri tilskipanir og nánari útfærslur þeirra eru á hendi hinna pólitísku fulltrúa, þ.e. fulltrúa ríkisstjórnanna á Evrópuþinginu og í Evrópuráðinu og EES-ríkin geta þar hvergi komið nærri. Almennt hafa áhrif ráðsins og Evrópuþingsins aukist á öllum sviðum ESB-samstarfsins og að sama skapi minnkar vald framkvæmdastjórnarinnar og það dregur úr möguleikum EES-ríkjanna til áhrifa.

Í þessu sambandi, sem skiptir kannski ekki stórmáli en skiptir okkur þó verulegu máli, má nefna sérstaka stöðu okkar í sambandi við samninga um þátttöku í hinum ýmsu áætlunum Evrópusambandsins, eins og vísindaáætlunum sem eru íslenskum vísindastofnunum og hátæknifyrirtækjum bráðnauðsynlegar. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að til þess að við getum haft aðgang að áætlunum Evrópusambandsins, eins og vísindaáætluninni, þurfa EES-ríkin að koma sér saman um í hvaða áætlunum þau vilja taka þátt. Þá er undir hælinn lagt hvort hagsmunir ríkjanna fari saman. Það gerist æ oftar að Norðmenn og Liechtensteinar hafa miklu minni áhuga á þátttöku í til dæmis vísindaáætluninni en Íslendingar vegna þess að þeirra eigin sjóðir duga ansi vel til að fjármagna mikilvægar rannsóknir og nýsköpun. Við höfum lent í því og munum lenda í því aftur að þurfa eilíflega að vera að semja við þessi ríki sem eru í allt annarri stöðu en við um hvort taka eigi þátt í einstökum áætlunum. Við getum lent í því að þau dragi lappirnar og jafnvel beinlínis neiti að semja við Evrópusambandið um þátttöku í slíkum áætlunum.

Þetta getur þýtt að við missum af mörg hundruð milljónum eða jafnvel milljörðum króna til íslenska vísindasamfélagsins ef okkur tekst ekki að semja við Noreg og Liechtenstein um þátttöku í prógrömmunum. Þá held ég að vísindarannsóknum okkar í háskólum og öðru því um líku verði illa fyrir komið. Þetta setur EES-samninginn í það samhengi að í stað þess að vera einn af 27 aðilum sem semja um hvernig þessar vísindaáætlanir þróist og hversu mikið fjármagn fer í þær þá erum við í annarri umferð, ef svo má segja, að reyna að semja við Norðmenn og Liechtenstein um að taka þátt í þeim.

Ákvarðanir eru nefnilega fyrst teknar á vettvangi Evrópusambandsins, við komum ekki að þeim. Þær ganga svo til EES-ríkjanna. Þá hefjast samningaviðræður okkar á milli og það er ekki alltaf þannig að hagsmunir Íslands og Noregs fari saman og Norðmenn hafa jú miklu sterkari stöðu í þessum samningi en nokkurn tíma Íslendingar. Ég tel því mjög mikilvægt að við stöndum jafnfætis öðrum Evrópuþjóðum, verðum á vettvangi og tökum ákvarðanir með öðrum Evrópuríkjum á jafnræðisgrundvelli en ekki í þeirri skekkju sem EES-samningurinn oft er.

Þetta eru bara tvö dæmi um það hvernig samningurinn sem slíkur er að veikjast og verða minna hentugur fyrir bæði EES-ríkin og aðildarríki Evrópusambandsins. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi banka- og fjármálaeftirlitið sem nú er í uppsiglingu, ýmsar blikur eru á lofti um að við munum ekki verða aðilar að því. Þetta eftirlit er nefnilega fyrir utan ramma EES-samningsins og það hefur flogið fyrir að Liechtenstein, svo dæmi sé tekið, sé byrjað að reyna að snúa sér út úr EES-samningnum með því að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið um aðkomu í banka- og fjármálaeftirlitinu, enda telja þeir það mjög mikilvægt fyrir sína hagsmuni.

Þetta er eitt dæmið um hvernig samstaða um að viðhalda EES-samningnum er að rofna og hvernig hann verður sífellt erfiðari í framkvæmd. Því segi ég að mér finnst ákveðin þversögn í afstöðu sumra flokka, t.d. Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkti á landsfundi sínum um helgina að loka algjörlega fyrir aðkomu eða framhald á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Mér finnst það dauðans alvara að viðhafa svona pólitík, haltu mér/slepptu mér, og segja annars vegar: Við skulum efla þátttöku okkar í hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins. Hann er farinn að veikjast. Hins vegar neita menn að horfast í augu við að eina leiðin til þess að hafa veruleg áhrif og virkilega standa vörð um hagsmuni Íslands er að vera fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Því segi ég, virðulegi forseti, að mér finnst orðið tímabært að þeir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem alfarið leggjast gegn því að við höldum áfram aðildarviðræðum og ljúkum þeim með góðum samningi og göngum inn sýni þjóðinni hvaða ábyrgu stefnu í utanríkisviðskiptum og samskiptum við Evrópusambandið þeir ætla að bjóða Íslendingum til framtíðar. Ekki stinga hausnum í sandinn.