141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

100 ára afmæli kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.

567. mál
[23:28]
Horfa

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 957 um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar og kjörgengis kvenna 19. júní 2015 að fela forsætisnefnd þingsins:

a. að kalla saman til undirbúningsfundar fulltrúa sem flestra samtaka íslenskra kvenna, svo og stofnana sem fást við jafnréttismál kvenna og karla, til þess að safna hugmyndum og gera tillögur um hvernig minnast skuli tímamótanna, auka jafnréttis- og lýðræðisvitund og blása til nýrrar sóknar í jafnréttis- og mannréttindamálum. Fulltrúarnir kjósi fimm manna framkvæmdanefnd sem móti endanlegar tillögur og annist frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015,

b. að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins og annað starfslið eftir þörfum,

c. að sjá framkvæmdanefnd og framkvæmdastjóra fyrir starfsaðstöðu,

d. að undirbúa tillögur um fjárframlög til verkefnisins 2013–2015.“

Að flutningi þessarar tillögu standa auk mín varaforsetar þingsins, formenn þingflokka og fulltrúar þingmanna utan flokka. Það er því ljóst að tillagan nýtur breiðs stuðnings á Alþingi. Slíkt þarf ekki að koma á óvart enda var ákvörðun Alþingis 1915 um að veita konum kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis mjög mikilvægur atburður í okkar þjóðarsögu. Ísland er í reynd í hópi þeirra landa í heiminum sem fyrst urðu til að veita konum kosningarrétt.

Sú sem hér stendur hefur um langt skeið verið mjög áhugasöm um að Alþingi minnist þessara merku tímamóta í jafnréttisbaráttu á Íslandi með þeim hætti að það verði þinginu til sóma. Eftir að ég var kjörin forseti Alþingis fór ég að huga að þessu máli og í mars á síðasta ári boðaði ég fulltrúa kvenna- og jafnréttissamtaka á Íslandi til fundar í Alþingishúsinu til að ræða þetta mál. Fundurinn var vel sóttur og á honum kom fram mikill áhugi á því að minnast þessara tímamóta með veglegum hætti. Þar voru reifaðar fjölmargar hugmyndir um hvernig væri viðeigandi að halda upp á þessi merku tímamót í sögu landsins og hvernig mætti um leið blása til nýrrar sóknar í jafnréttismálum. Sú framkvæmdanefnd sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni fær því mikið og gott tillögusafn í veganesti sem hún getur stuðst við í sínu starfi.

Ljóst er af þeim umræðum sem spunnust á fundinum að áhugi er mikill meðal kvenna að koma að undirbúningi þessa verkefnis, reyndar karla líka. Það fékk ég enn frekar staðfest þegar ég átti fund með ýmsum áhugakonum um þetta verkefni fyrr í þessum mánuði. Sá fundur styrkti mig í þeirri sannfæringu að það verður engum vandkvæðum bundið að virkja konur til að standa að glæsilegri hátíðardagskrá sem spanni allt árið 2015.

Þó að ljóst sé að ekki skorti hugmyndir um viðburði í tengslum við afmælið vitum við líka að umfang hátíðarhalda og fjöldi viðburða mun ráðast af því fjármagni sem Alþingi samþykkir að veitt verði í verkið. Við höfum á undanförnum árum staðið myndarlega að því að minnast merkra tímamóta í sögu lands og þjóðar og má þar nefna 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 2011, en til að undirbúa það hátíðarár voru veittar um 100 millj. kr. í fjárlögum á árunum 2008–2011. Með sama hætti var veglega staðið að því að minnast 100 ára afmælis heimastjórnar árið 2004 og ég treysti því að Alþingi sýni ekki minni rausnarskap þegar kemur að því að minnast 100 ára afmælis kosningarréttar og kjörgengis kvenna. Hvet ég til þess að það verði skoðað hversu miklar fjárveitingar voru settar í ýmsar hátíðir sem marka slík tímamót.

Ég tel brýnt að við getum byrjað sem fyrst að skipuleggja þetta stóra verkefni og að fjárframlög til þess komi þegar á þessu ári þannig að nægur tími gefist til þess að undirbúa menningar-, lista- og fræðaviðburði áður en afmælisárið gengur í garð. Ég hvet því þingheim til að stuðla að því að mál þetta fái afgreiðslu fyrir lok þessa þings.

Þess ber loks að geta að við staðfestingu stjórnarskrárbreytingarinnar 19. júní 1915 var ekki aðeins lögfestur kosningarréttur kvenna heldur einnig hjúa svo og kaupstaðarborgara, þurrabúðarmanna og lausamanna, sem greiddu að minnsta kosti 4 krónur í aukaútsvar. Með öðrum orðum, fátækt fólk og öðrum háð fékk líka þau mannréttindi sem í kosningarréttinum felst. Vel færi á því að þess væri einnig minnst við þau tímamót sem verða árið 2015.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til skjótrar afgreiðslu.