141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. AGS áætlaði í efnahagsáætlun sinni að hagvöxtur á þessu ári yrði 4,5%. Seðlabankinn hefur nú varað við meiri slaka í efnahagslífinu á þessu ári en gert var ráð fyrir og hefur lækkað hagvaxtarspá sína úr 3% í 2%. Ástæðan er hægari vöxtur fjárfestinga og neyslu innan lands og versnandi viðskiptakjör af völdum kreppudýpkandi efnahagsstefnu ESB og þungrar greiðslubyrði af erlendum lánum. Við slíkar aðstæður er ástæða til að lækka vexti á Íslandi.

Peningastefnunefnd er hins vegar búin að vera í vaxtahækkunarferli frá því í ágúst 2011 og ekkert bólar á vaxtalækkun. Of miklar verðbólguvæntingar eru sagðar koma í veg fyrir lækkun vaxta. Verðbólguvæntingar eru miklar vegna þess að peningastefnunefndin þráast sjálf við að lækka vexti. Nefndin vill vera sem næst jafnvægisvöxtum í hagkerfi sem er aldrei í jafnvægi. Hefja verður strax vaxtalækkunarferli til að draga úr verðbólguvæntingum og örva atvinnulífið. Hávaxtastefna AGS og Seðlabankans eftir hrun hefur rænt þjóðina lífskjarabata upp á tugi milljarða.

Frú forseti. Höfnum ofurvöxtum sem almenningur þarf að greiða fyrir með lakari lífskjörum og minni velferðarþjónustu. Lækkum vaxtakostnað fyrirtækja, heimila og ríkissjóðs.