141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er að síga á seinni hlutann á þessu kjörtímabili og þessu þingi. Við eigum enn eftir að ljúka hér mörgum málum og mig langar að gera að umtalsefni mál sem liggur í efnahags- og viðskiptanefnd, tekur til stimpilgjalda og er hluti af hugsanlegri lausn fyrir fjölskyldur í landinu.

Ef við afnemum stimpilgjöld á íbúðakaup til einkanota fyrir fólkið í landinu, fjölskyldur og einstaklinga, erum við að auðvelda því mjög það verkefni sem það glímir við og felst í skuldavanda heimila.

Í öðru lagi var það fest í sessi í gegnum bandorminn að endurfjármögnun lána innan sömu stofnunar væri án stimpilgjalda. Það er af hinu góða en við þurfum líka að gefa fólki tækifæri til að færa sig á milli lánastofnana án stimpilgjalda. Ríkissjóður er á fjárlögum þessa árs, 2013, með 4 milljarða. Ríkisstjórnin lofaði í október frumvarpi til breytinga á stimpilgjöldum vegna athugasemdar ESA. Ríkisstjórnin lofar nú breytingum á stimpilgjöldum eftir nefndarvinnu sem á að ljúka í aprílmánuði. Ég skora á efnahags- og viðskiptanefnd að fella brott og afnema stimpilgjöld á íbúðarhúsnæði til einkanota fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Tökum þetta fyrsta skref til hagsbóta fyrir heimilin í landinu, sýnum á þessu þingi að okkur er veruleg alvara með að aðstoða fólk sem er í vanda.