141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Talsverðar umræður hafa átt sér stað undanfarið um vinnubrögð, samskipti og samstarf þvert á flokka. Einnig hefur mikið verið rætt um auðlindir þjóðarinnar, nýtingu þeirra og vernd. Segja má að þessir tveir mikilvægu þættir sameinist í málþingi sem nú stendur yfir í Hörpu á vegum ráðgjafarhóps um mögulega lagningu raforkustrengs til Evrópu. Hugmyndin um tengingu Íslands við Evrópu með flutningi á raforku hefur staðið yfir í áratugi. Nýlega þó, á árinu 2011, ályktaði stýrihópur um heildstæða orkustefnu á vegum iðnaðarráðherra að einangrun íslenska raforkukerfisins verði rofin með lagningu sæstrengs ef og þegar það reynist þjóðhagslega hagkvæmt. Við athugun á slíku stórverkefni kom ekkert annað til greina en samvinna margra sem nálgast geta málin frá ólíkum sjónarhornum.

Á síðasta ári þegar ég gegndi starfi iðnaðarráðherra vann ég að því að skipaður yrði þverpólitískur ráðgjafarhópur um málið. Í honum sitja fulltrúar allra þingflokka, stærstu hagsmunasamtaka landsins, Landsvirkjunar og Landsnets, og náttúruverndarsamtaka. Formaður er Gunnar Tryggvason. Í erindisbréfi er tekið fram að breið samfélagsleg sátt sé nauðsynleg eigi verkefnið að verða að veruleika. Vinna hópsins hófst svo í fyrrahaust.

En hver urðu áhrif þessarar tengingar? Það er stóra spurningin. Við viljum nýta auðlindir með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga, leita eftir hæsta verðinu en einnig eftir dreifingu á áhættu. Hafa þarf í huga að hæsta verð er ekki endilega forsenda mestu hagsældar. Þar kemur fleira til, svo sem atvinnusköpun og vernd náttúrugæða.

Ráðgjafarhópurinn stendur fyrir upplýstri umræðu í dag um málið og það er svo sannarlega í mörg horn að líta hvað þetta stóra mál varðar.