141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Línur hafa nokkuð skýrst í íslenskum stjórnmálum eftir landsfundi helgarinnar — eða ekki. Óneitanlega vekur ályktun sjálfstæðismanna nokkra furðu, en þeir segja annars vegar að krónan í höftum geti ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef við viljum eiga í alþjóðlegri samkeppni með fyrirtæki okkar og vörur en hins vegar vilja þeir loka á þann kost sem er hvað skýrastur við hlið krónunnar, þ.e. upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera vonbrigði fyrir Evrópusinnaða sjálfstæðismenn, frjálslyndari arm flokksins, enda ljóst að harðlínuöflin, einangrunaröflin, hafa náð völdum í Sjálfstæðisflokknum.

Flokkurinn sem vill lækka skatta lokar nú um leið á bestu og mestu skattalækkun sem hægt er að færa íslenskum almenningi. Íslenskur almenningur greiðir 18% meira af húsnæðislánum sínum í vexti og afborganir en Evrópubúar gera. Það jafngilti um 29% launahækkun ef við tækjum upp evru og tækjum evrópsk húsnæðislán.

Valkostir frjálslyndra kjósenda hafa nokkuð skýrst við tíðindi helgarinnar. Það er morgunljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valkostur fyrir frjálslynda kjósendur í þessu landi. Hann lokar á þann kost sem atvinnulífið kallar eftir, nútímaatvinnulífið, hann lokar á nýjan kost fyrir verðtryggða húsnæðislánagreiðendur, hinn íslenska almenning, hann lokar á þann kost sem er hvað skýrastur til að byggja hér upp atvinnulíf og verðmætasköpun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki bara útilokað sig sem valkost fyrir frjálslynda kjósendur, heldur hefur hann einnig útilokað þann kost að geta unnið með jafnaðarmannaflokki Íslands (Gripið fram í: Ú.) í næstu ríkisstjórn [Kliður í þingsal.] vegna þess að við jafnaðarmenn (Forseti hringir.) viljum halda áfram þessu aðildarferli og leyfa þjóðinni sjálfri að taka afstöðu til samnings þegar hann liggur fyrir svo þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvort hún vill ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. (RR: Amen.)