141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Mér heyrðist hv. þm. Helgi Hjörvar tala eins og hann hefði ekki verið í ríkisstjórn fyrir hrun. Ég man ekki betur en að það hafi staðið í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, og hafi verið hamrað á því, að ekkert mætti gera til að koma í veg fyrir útrásina svokölluðu. Það átti að fóðra hana með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum. Tók ekki Samfylkingin mjög virkan þátt í því á sínum tíma? En nú er Samfylkingin einhvern veginn búin að ná að skola þetta af sér og er að reyna að láta líta út eins og hún hafi ekki tekið þátt í þessu stjórnarsamstarfi á sínum tíma. Þar ber auðvitað hv. þm. Helgi Hjörvar mjög ríka ábyrgð líka því að hann var ein helsta klappstýra útrásarinnar, studdi á sínum tíma foringja sinn til að fara til Evrópu vegna þess að ímyndarvandi hafi verið eina vandamál íslenska bankakerfisins. Það væri ágætt ef hv. þm. Helgi Hjörvar rifjaði þetta upp, bæði fyrir okkur sem hér erum og eins kannski fyrir sjálfan sig.

Af því að Evrópusambandsumsóknin barst hér í tal vil ég segja að það er mjög athyglisvert að Samfylkingin skuli einangra sig svona í þessum málum. Staðreyndin er sú að meiri hluti þjóðarinnar er mjög andsnúinn ESB-aðild. Sé rýnt í síðustu skoðanakannanir er athyglisvert að bæði innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru færri sem vilja ganga í Evrópusambandið en eru andsnúnir ESB-aðild innan Samfylkingarinnar. Helmingi fleiri kjósendur Samfylkingarinnar eru andsnúnir ESB-aðild en fylgjandi því innan Framsóknarflokksins, bara svo dæmi sé tekið. Ef einhver flokkur er að einangra sig í stjórnmálunum í dag hlýtur það að vera flokkur sem einblínir svo á þetta mál á stefnuskrá sinni að ekkert annað kemst að.

Við heyrðum það hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram hér áðan, hann útilokaði það að eiga samstarf við nokkurn flokk nema þetta mál héldi áfram. Svo gera menn grín að öðrum (Forseti hringir.) fyrir það að hugsa bara um eitt mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að Samfylkingin er stofnuð um eitt mál og það er bara eitt mál sem heldur flokknum saman. Ekkert annað kemst að, ekkert um skuldamál eða atvinnumál. Það er bara eitt mál og það er ESB. Það er dapurlegt fyrir jafnaðarmannaflokk Íslands.