141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að blanda sér í þessa umræðu, enda er ánægjulegt að við jafnaðarmenn tökum þátt í umræðu við andstæðinga okkar í stjórnmálum um stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu, aðild að Evrópusambandinu.

Valið er skýrt í næstu kosningum. Það hefur komið skýrt fram í ræðum þingmanna í dag. Vilji menn áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið og fá að taka afstöðu til samnings kjósa þeir jafnaðarmannaflokk Íslands. (Gripið fram í.) Vilji menn hætta viðræðum eiga þeir að kjósa eitthvað annað. (Gripið fram í: Hvað með að kjósa Vinstri græna?)

Raunhæfasta leiðin til að létta á vaxtabyrði heimila í landinu og hjálpa skuldugum heimilum er að skipta um mynt. Besta leiðin til að auka verðmætasköpun í landinu, besta leiðin til að auka útflutning og samkeppnisstöðu fyrirtækjanna er að taka upp nýja mynt. Þess vegna viljum við jafnaðarmenn setja Evrópusambandið á oddinn. Það er þess vegna sem við jafnaðarmenn erum að gera þetta að kosningamáli. Ég þakka hv. sjálfstæðismönnum kærlega fyrir, ályktun þeirra um helgina gerði Evrópusambandsaðild að kosningamáli næstu kosninga. Nú hafa kjósendur algjörlega skýra kosti. (REÁ: Í þágu heimilanna.)

Vilja þeir styðja Sjálfstæðisflokkinn og loka á stærsta hagsmunamál fyrirtækja í landinu eða vilja þeir styðja jafnaðarmenn og fá að taka afstöðu til fullgilts samnings? Ég spyr í ofanálag: Er einhver spenntur fyrir því að styðja flokk sem ætlar að lækka skatta á þá sem eiga mest og þéna mest? (Gripið fram í: Þú ert líka …) Það finnst mér ekki hyggileg leið þegar ríkissjóður á ekki fyrir þeim útgjöldum sem hann stendur frammi fyrir. (Gripið fram í: Þú ert illa …) Þess vegna segi ég: Það er hyggilegra ef menn vilja hjálpa skuldugum heimilum og sjá leið út úr vandanum að styðja við bakið á jafnaðarmönnum því að þeir eiga einu raunhæfu leiðina út úr þeim vanda sem Ísland stendur frammi fyrir. (Gripið fram í.) Leið sjálfstæðismanna er að loka og einangrast, það er leið harðlínuaflanna og þá leið geta frjálslyndir ekki stutt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)