141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:09]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu um öldrunarmál. Í fyrsta lagi ætla ég að gera grein fyrir stöðunni varðandi framboð hjúkrunarrýma og eftirspurn eftir þeim til að lýsa þörfinni eins og hún er samkvæmt biðlistum, en ég heyri þó að hv. þingmaður er með þær tölur enda birtust þær í svari við fyrirspurn til hv. þingmanns ekki alls fyrir löngu.

Árið 2012 voru hjúkrunarrými á landinu alls 2.446 samkvæmt skráningu. Þá er að vísu Fellsendi í Dölunum ekki talinn þar með. Aftur á móti var vistunarþörfin meiri en sem nam fjölda hjúkrunarrýma og svaraði til þess að það vantaði um það bil 232 — ég segi um það bil, það er talið svo nákvæmlega — hjúkrunarrými á landsvísu miðað við fjölda á biðlista í árslok 2012. Þessir biðlistar skiptust þannig að á höfuðborgarsvæðinu voru á biðlista 126 einstaklingar, af þessum 232, og biðtími á þessum tíma var 2,9 mánuðir. Á Suðurnesjunum voru 20 og þar var biðtíminn mun lengri. Síðan er Vesturland með níu pláss, Vestfirðir sjö, Norðurland 29, Austurland 12 og Suðurland 29. Athyglisvert er að á Suðurlandi er biðtíminn eftir að komast í rými ekki nema þrír mánuðir, næstlægstur á landinu miðað við þessar tölur.

Hv. þingmaður vill síðan vita hvort einstaklingar í dvalarrými sem uppfylla skilyrði um að vera í hjúkrunarrýmum séu inni í tölum ráðuneytisins varðandi biðlistana o.s.frv. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis sem heldur utan um biðlistana voru aðeins þrír einstaklingar í dvalarrými í byrjun þessa árs sem biðu eftir flutningi í hjúkrunarrými. Þeir eru ekki í þessum framangreindu tölum þannig að þeir skýra ekki þann mismun sem hv. þingmaður benti á en það er full ástæða til að hafa varann á sér varðandi alla þessa biðlista og hvernig þeir eru birtir þó að við verðum auðvitað að taka alvarlega þær tölur sem koma frá færni- og heilsufarsnefndum sem formlega hafa það hlutverk að úrskurða hvort viðkomandi eigi rétt á hjúkrunarrými eður ei.

Það verður að viðurkennast að fjöldi á biðlistum segir ekki allt um þörfina á uppbyggingu hjúkrunarrýma. Ég hef lýst þessari þörf fyrir uppbygginguna ef eingöngu er horft á biðlistana í hverju heilbrigðisumdæmi. Það hefur verið kappsmál stjórnvalda að efla heimahjúkrun við aldraða í mörg undanfarin ár og leiðarljósið er að aldraðir geti búið heima hjá sér sem lengst með góðum stuðningi. Sveitarfélögin bera hér líka ábyrgð vegna heimaþjónustu sem þau veita en hér á landi hefur hlutfall aldraðra á öldrunarstofnunum lengst af verið mun hærra en í nágrannalöndunum. Þetta sést meðal annars á meðallengd dvalartíma aldraðra í hjúkrunarrými. Þessi meðaltími er í Reykjavík um þrjú ár, á landsbyggðinni er hann lengri, um þrjú og hálft ár. Aftur á móti eru sambærilegar tölur frá Skandinavíu um tvö ár svo munurinn er umtalsverður og þarna höfum við fylgt þeirri þróun að reyna að auka heimaþjónustuna en stytta vistunartíma á stofnunum.

Síðan höfum við haft þá mælingu að við notum svokallað RAI-mat til að mæla hjúkrunarþyngd og það kemur í ljós að RAI-matið er einmitt hærra á höfuðborgarsvæðinu sem bendir til þess sama og skýrir þennan styttri dvalartíma. Fólk kemur seinna inn og dvelur skemur í hjúkrunarrýmum.

Þörf fyrir framtíðaruppbyggingu hjúkrunarrýma helgast líka af þeirri staðreynd að þjóðin er að eldast og hlutfall aldraðra fer hækkandi. Ráðuneytið hefur reiknað út að miðað við fjölda hjúkrunarrýma núna þyrfti að bæta við á landsvísu samtals um 555 nýjum hjúkrunarrýmum til ársins 2020. Þegar frá eru talin þau rými sem þegar eru í byggingu eða í undirbúningi er vöntunin minni, þ.e. um 385 rými sem þarf að bæta við til ársins 2020. Þá er miðað við óbreytta meðalvistunarþörf fólks í hjúkrunarrýmum eins og áður sagði.

Aftur á móti ber að líta til þess að eftir því sem heimahjúkrun eykst sem og heimaþjónusta og önnur þjónusta sem styður aldraða til sjálfstæðrar búsetu dregur úr þörfinni fyrir ný hjúkrunarrými.

Hv. þingmaður spyr einnig um uppbygginguna sem hefur átt sér stað. Þetta er umfangsmeira en svo að ég nái að svara því á þessum fjórum mínútum. Þetta kemur þó ágætlega fram í skriflegu svari til hv. þingmanns í þskj. nr. 555, máli nr. 314, sem lagt var fram árið 2012. Í þessari uppbyggingu var, eins og oft hefur komið fram, leitað til níu sveitarfélaga um uppbyggingu á hjúkrunarrýmum og við erum með þann lista. Það verður að segjast eins og er að það hefur valdið ákveðnum vonbrigðum að sum af þeim heimilum hafa ekki komist í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og sum hafa verið seinni. Þá er ég að tala um svæði eins og Hafnarfjörð, Seltjarnarnes og Kópavog sem ekki eru búin að hefja byggingar. Aftur á móti er Garðabær að koma með sitt heimili í notkun og hið sama gildir um Mosfellsbæ. (Forseti hringir.) Þarna er um að ræða aukningu á rýmum sem koma inn á næstunni og ég get farið í seinna svari mínu betur inn á þessi mál eftir að hafa líka hlustað á umræðu hjá öðrum þingmönnum.