141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem fjölgun hjúkrunarrýma og þjónusta við aldraða er á Íslandi í dag. Sú kynslóð sem um áratugi hefur byggt upp íslenskt samfélag á það skilið að á efri árum sé sómasamlega búið að þjónustu við hana. Þjóðin er að eldast og ef við horfum fram á veginn mun eftirspurn eftir þessari þjónustu aukast enn frekar.

Það er því áhyggjuefni, sem kemur fram í fyrirspurn frá Sigmundi Erni Rúnarssyni til velferðarráðherra, að árið 2009 var heildarfjöldi hjúkrunarrýma 2.575 en í dag er heildarfjöldi hjúkrunarrýma 2.472. Frá árinu 2009 til ársins 2012 hefur hjúkrunarrýmum verið fækkað um 302 en á móti þeirri fækkun hafa komið ný rými svo að heildarfækkun er 103 hjúkrunarrými. Á þessum tíma hefðum við þurft að efla þjónustu við eldri borgara þannig að ég held að við hljótum, sama hvar í flokki við stöndum, að vera sammála um að hér þurfi að bæta verulega úr.

Það er gleðileg þróun að einbýlum hefur verið fjölgað, það eru mannréttindi sem eldra fólk á að njóta að geta búið eitt á hjúkrunarrýmum á efri árum. Það á að heyra sögunni til að tveir, þrír og jafnvel fjórir séu á sama herbergi. Það er líka áhugavert að nefna í þessari umræðu þau áhrif sem skortur á hjúkrunarrýmum hefur á starfsemi Landspítalans, það kom fram hjá hv. frummælanda. Ég vil líka nefna að við þurfum að útbúa fjölbreytt þjónustuúrræði og þar skiptir heimaþjónustan miklu máli. Ég tel að gera megi mun betur við að aðstoða eldra fólk við að búa lengur heima hjá sér. (Forseti hringir.) Við þurfum fjölbreytt úrræði. En fyrst og fremst þurfum við að gefa í og bæta þjónustu við eldri borgara þessa lands.