141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu málefni. Þetta er afar mikilvægt málefni og ég vil í því sambandi nefna að þetta var einmitt eitt af því sem var til umræðu á landsfundi Vinstri grænna um síðustu helgi. Þá var einmitt tekið á þætti sem ég held að við höfum svolitla tilhneigingu til að gleyma, þ.e. mannréttindaþættinum, þeim sjálfsögðu mannréttindum eldra fólks að vera ekki, nánast upp á neyð, þvingað til að búa með óskyldum á síðustu árum eða síðustu mánuðum ævinnar.

Eitt af stærstu mannréttindamálunum í þessum efnum er að útrýma fjölbýlum. Enn þann dag í dag, árið 2013, ætlum við í sumum tilfellum eldra fólki þessa lands að búa í fjölbýli þar sem allt að fjórir einstaklingar búa saman og það í herbergjum sem stundum eru innan við sex fermetrar á einstakling. Þetta er sú skelfilega staða sem við búum við í dag. Þessu verðum við að breyta og á þessum vanda verðum við að taka. Það er alveg rétt, sem fram hefur komið hjá hv. þingmönnum, að það þarf líka að bregðast við vandanum sem liggur í því að biðlistar eru langir. Þann vanda er hægt að nálgast á meðan við erum að leysa úr hinum, með aukinni þjónustu heim og bættum úrræðum eins og endurhæfingu og hvíldarinnlögnum. Mannréttindaþáttinn verðum við að laga fyrst. (BirgJ: Heyr, heyr.)