141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar umræður, mér finnst þær mjög mikilvægar. Málefni eldra fólks í samfélaginu eru ekki mjög oft á dagskrá hér á Alþingi. Þó er þetta hópur sem fer sístækkandi. Ég vil taka undir þær áhyggjur sem menn hafa látið í ljós af hreinum og klárum mannréttindabrotum sem eiga sér stað gagnvart eldra fólki hérlendis. Fólk býr stundum við hrikalega erfiðar aðstæður, þegar margir eru í herbergi, og fólk bíður mjög lengi eftir að fá úrlausn sinna mála. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að hugsa aðeins út fyrir rammann. Ég er mjög hlynnt heimahjúkrun en ég er líka hlynnt því að gert verði átak í því að reyna að aðstoða aðstandendur meira við að taka þátt í lífi eldri ættingja sinna.

Ég þekki þetta af eigin raun. Ég hefði gjarnan viljað hafa ömmu mína hjá mér en það var ekki hægt út af því að ég bjó á fjórðu hæð og hún hafði ekki tök á að komast þangað upp. En það kom í ljós þegar ég var að ræða við hana að það er til einhver aðstoð en hún liggur ekki á lausu. Það vantar líka upplýsingar um það hvernig við getum fengið fjölskylduna til þess að lifa í þeim anda sem áður var. Þegar ég var að alast upp bjó langamma mín heima hjá mér og hann var mér alveg ómetanlegur sá lærdómur sem ég fékk frá henni. Ég er ekki að segja að við eigum að yfirfæra vandamálið yfir á fjölskyldurnar en ég kalla samt eftir því að við hugsum út fyrir rammann. Við erum að fara inn í tímabil þar sem sífellt fleiri munu þurfa á aðhlynningu (Forseti hringir.) samfélagsins að halda. Mér finnst mikilvægt að við tölum um það á einlægan og opinskáan hátt hvernig við getum leyst þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag sem verða enn meiri þegar fram líða stundir.