141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um hið brýna velferðarmál sem hjúkrunarheimili eru. Fram hafa komið ýmsar tölulegar staðreyndir í þessari umræðu og eins hefur hv. þm. Ólafur Gunnarsson rætt um mannréttindavinkilinn þegar að hjúkrunarheimilum kemur. Það er einmitt þar sem ég vil hefja mál mitt því að á þessu kjörtímabili, sem hefur verið mjög svo erfiður tími í ríkisfjármálunum, hefur mikill metnaður verið lagður í það af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að fjölga hjúkrunarrýmum, byggja ný hjúkrunarrými til þess að eyða tvíbýlum og fjölbýlum. Þó að hjúkrunarrýmum hafi fækkað hefur einbýlum stórlega fjölgað þannig að þrátt fyrir efnahagsþrengingarnar höfum við ekki slegið af kröfum um aðbúnað aldraðra.

Þá hefur verið, samkvæmt hinni nýju leiguleið, hægt að byggja ný rými og frá 2009 eru 850 rými undir, sum eru þegar orðin að veruleika, 178 eru í farvatninu og áform eru uppi um 200 til viðbótar, þau eru á höfuðborgarsvæðinu enda er biðlisti lengstur hér þó að biðtíminn sé ekki lengstur; aldraðir eru mun veikari en gengur og gerist að meðaltali yfir landið þegar þeir komast inn á hjúkrunarrými. Því er gríðarlega mikilvægt að allt kapp sé lagt á að ná samtali við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og hrinda af stað byggingu þeirra 200 rýma sem þegar er búið að áforma; en ekki er búið að ákvarða tímasetningu framkvæmdar.