141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það er alltaf gott þegar þingmenn eru sammála og það virðist vera einlægur vilji í þessum þingsal að gera eitthvað í þessum málum. Ég átta mig samt ekki alveg á því hver næstu skref eru. Ég hef horft upp á aðstæður gamals fólks í hjúkrunarrýmum þar sem aðbúnaður þess er hræðilegur. Ég veit um ekki bara eitt tilfelli heldur mörg þar sem fólk hefur til dæmis dottið á gólfið og legið þar klukkutímum saman án þess að nokkur sinnti því. Ég er sammála því að það er mjög mikilvægt að þjónustan, bæði heima og í hjúkrunarrýmunum, sé hámarksþjónusta. En höfum við efni á því? Það er spurning sem við þurfum að spyrja okkur. Hvernig ætlum við að vinna úr þessum miklu breytingum í aldursskiptingu hérlendis?

Við verðum að vera heiðarleg gagnvart því hvernig við ætlum að leysa úr þessu og mér finnst þetta eiginlega skammarlegt. Það er óþægilegt að heyra sögur um aðbúnað gamals fólks í hjúkrunarrýmum, alla biðlistana, að fólk bíði kannski í hálfgerðri óþökk á spítölunum, oft og tíðum á göngunum. Hvað getum við gert til að breyta þessu? Það er bara eitt svar, það þarf að setja meiri peninga í málaflokkinn. Það er svo einfalt. (Gripið fram í.) Hvaðan koma þeir peningar? Það er spurningin. Og hvernig er peningunum útdeilt? Ég heyrði ekki hvað hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði en mig langar að heyra spurninguna frá henni. (SF: Aukin heimaþjónusta.) Aukin heimaþjónusta, ég er alveg sammála því.