141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í þessa umræðu fyrir skemmtilega og góða umræðu. Það er gott að við erum flestöll sammála um að við viljum búa vel að okkar elstu kynslóðum og að við viljum og teljum þörf á að bæta úr. Mikilvægast af öllu, til að við áttum okkur á því hvað þarf að gera, er að fá upplýsingar og þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að fara aftur yfir tölulegu gögnin. Ég hef bent á villu í þeim sem ég tel rétt að finna út úr og vonast til þess að það verði gert strax í kjölfar þessarar umræðu, þ.e. að telja þá sem eru í dvalarrýmum, hafa farið í gegnum mat og uppfylla skilyrði til að fara í hjúkrunarrými. Ég tel að þeir séu ekki taldir rétt í þeim tölulegu upplýsingum sem liggja fyrir.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Telur hann að ég ofmeti þann vanda sem Landspítalinn er í vegna þess að einstaklingar komast ekki út af spítalanum og inn í hjúkrunarrými nægilega fljótt og vel? Eða deilir ráðherrann áhyggjum mínum af þessum vanda? Ég tel að þetta sé atriði sem við eigum að horfa á. Til að reyna að koma til móts við þann mikla vanda sem spítalinn stendur frammi fyrir þurfum við að horfa í þetta og fara í að svara því.

Það er ágætt að í kjölfar þeirra fyrirspurna sem lagðar hafa verið fram liggur fyrir ágætisyfirlit yfir það hver staðan var í árslok 2012. Við þurfum engu að síður að átta okkur á því annars vegar hvar þörf er á frekari lagfæringu á húsnæði og uppbyggingu nýrrar aðstöðu, þó að ekki sé verið að tala um ný rými, og horfa á það sem sérstakt verkefni og hins vegar er það verkefni að fjölga rýmum. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru stóru kynslóðirnar að koma upp og stóru kynslóðirnar að eldast. Þó að við aukum heimahjúkrun (Forseti hringir.) þurfum við alltaf á því að halda að eiga hjúkrunarrými á hjúkrunarheimilum til þess að taka á móti fólki (Forseti hringir.) þegar hitt dugir ekki lengur.