141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:42]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Markmið þessa frumvarps er að styrkja starfsumhverfi Ríkisútvarpsins og auka sjálfstæði þess, bæði í faglegum og fjárhagslegum efnum. Sömuleiðis er með þessu frumvarpi stigið skref til að bæta samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla á þessum markaði með tilteknum takmörkunum á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði. Heildaráhrif þessa frumvarps eru því þau að RÚV stendur sterkara eftir sem almannaþjónustufjölmiðill með skýrt lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk á sama tíma og samkeppnisstaða einkareknu miðlanna mun vænkast með aukinni hlutdeild á auglýsingamarkaði.

Það var góð samstaða um þetta mál í allsherjar- og menntamálanefnd, fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins standa að áliti meiri hlutans. Afstaða Sjálfstæðisflokksins vekur að einhverju leyti furðu í ljósi þess að þarna er verið að auka samkeppni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Skýringin liggur kannski ljós fyrir eftir landsfund þess ágæta flokks sem haldinn var um helgina, en þar er ályktað í landsfundardrögum að Ríkisútvarpið verði lagt niður í núverandi mynd. Það er sjónarhorn frjálshyggjunnar. Við jafnaðarmenn styðjum öflugt, faglegt ríkisútvarp á fjölbreyttum fjölmiðlamarkaði og ég þakka öllum nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu í þessu máli.