141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér kemur til atkvæðagreiðslu bætir stöðu Ríkisútvarpsins og bætir líka stöðu einkarekinna stöðva á markaðnum. Það er vel. (Gripið fram í.) Það er löngu tímabært að huga að þessu samspili á milli einkarekinna stöðva og Ríkisútvarpsins eins og gert er í frumvarpinu og metnaðurinn er mikill eins og störf nefndarinnar bera glöggt vitni.

Menn skiptast í tvö horn. Hér er fólk sem vill styðja við mikilvæga og upplýsandi menningarstarfsemi Ríkisútvarpsins og eyða í það peningum, vissulega — en það skilur á milli í þessum sal fólks sem er á móti ríkisstyrktri menningu og fólks sem vill almennilega fjölbreytni í samfélaginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég er þeim megin sem fjölbreytnin er og þess vegna segi ég já. Ég ætla ekki að líða það að hér sé rekin Morgunblaðsfréttamennska út í það óendanlega (Gripið fram í: Heyr, heyr.) með engu umburðarlyndi, hatursfullum áróðri (Forseti hringir.) og ókristilegri framkomu. [Hlátur í þingsal.]