141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér erum við að ganga endanlega frá, í þessari umferð, atkvæðagreiðslu um textun. Það eru nýmæli að verið er að bæta við orðinu fréttum, nú á sem sagt að texta fréttirnar líka. Mér finnst það afar jákvæð viðbót og ekki bara fyrir þá sem eru heyrnarskertir heldur fyrir miklu fleiri. Nú getur fólk væntanlega horft á fréttir með texta undir og þarf ekki að heyra hvert einasta orð. Ég held að það sé gott fyrir heimilin í landinu, þar sem fram fer mikil umræða og oft er skvaldur og fjör í kringum fréttatíma eins og gengur og gerist. Fólk getur þá fylgst með fréttum og lesið textann og þarf ekki lengur að heyra hvert einasta orð. Ég held að þetta sé til bóta fyrir mjög stóran hluta landsmanna.