141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er dæmi um breytingartillögu sem er nokkuð viðamikil frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og lýtur að svigrúmi Ríkisútvarpsins til þess að setja á fót tilraunaþjónustu á afmörkuðum sviðum. Við teljum afar mikilvægt, einmitt með samkeppnissjónarmiðin í huga, að virk og skýr skilyrði séu fyrir þjónustu af því tagi, að það þurfi að leggja hana undir mat fjölmiðlanefndar og undir mat utanaðkomandi aðila til þess að sjá hvort þau uppfylli þau skilyrði að þjónustan sé ætluð afmörkuðum fjölda eða þátttakenda á tilteknu svæði. Við teljum líka brýnt að reynslutíminn verði nýttur til að afla upplýsinga um hvort þörf er á því að útvíkka þjónustuna og það verði gert með sérstöku, ítarlegu mati, meðal annars út frá samkeppnissjónarmiðum.