141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

lyfjalög.

460. mál
[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál en fylgdist aðeins með umræðunni. Eins og ég skil þetta er þetta mjög skýrt dæmi um mikla skattagleði. Hér er enginn skattstofn, hv. þm. Þuríður Backman fór yfir það. Það á aldrei að verða neinn skattstofn, en samt samþykkja menn skatt.

Virðulegi forseti. Svo skilja menn ekki af hverju ekki er gert neitt í skuldamálum heimilanna. Þegar menn eru svona uppteknir að búa til skatt á eitthvað þar sem ekki er neinn skattstofn er eðli málsins samkvæmt náttúrlega ekki mikill tími fyrir annað. Þannig að þetta er alveg stórfurðulegt mál. Því meira sem ég hlusta á atkvæðaskýringar stjórnarliða því minna skil ég í því. En ég ætla svo sannarlega ekki að greiða atkvæði með málinu.