141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

62. mál
[15:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um þingsályktunartillögu um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs. Þessi þingsályktunartillaga, sem er flutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ásamt fleirum, endurspeglar og undirstrikar hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að treysta áhrif okkar á þróun á vettvangi samstarfs innan Evrópu og varpar ljósi á það, burt séð frá því hvaða leið við veljum varðandi tengsl okkar við Evrópusambandið til framtíðar. Hér er fyrst og fremst verið að undirstrika mikilvægi þess að við nýtum tækifæri okkar á vettvangi EES-samningsins til að hafa áhrif.

Það er alveg ljóst í mínum huga að á næstu árum mun framkvæmd EES-samningsins lenda í erfiðleikum. Þess vegna er mikilvægt að við eflum umræðu um það hvernig við treystum þetta samstarf best til framtíðar litið og mælum með því í utanríkismálanefnd að þessi tillaga verði samþykkt.