141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[15:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að þegar menn fara í sameiningar er það gert á grundvelli þess að ná fram faglegri vinnubrögðum og ná betri árangri, ellegar að menn ætla að draga úr kostnaði. Hvorugt á við í þessu máli. Þegar frumvarpið var fyrst flutt — þetta er í þriðja sinn á þessu kjörtímabili sem það er flutt en í tvö fyrri skiptin náðist það ekki í gegn — var upphaflega hugmyndin sú að það ætti að nást sparnaður með því. Ég átti þá sæti í samgöngunefnd og þegar menn kröfðust þess að fá að sjá þau gögn sem sýndu fram á þann sparnað voru þau ekki til. Að minnsta kosti voru þau ekki sýnd okkur.

Síðan er þetta keyrt áfram af einhverjum óskiljanlegum hvötum að mínu mati. Það er svo dapurlegt vegna þess að markmið laganna er að ná árangri í slysarannsóknum. Hvernig getur maður staðið hér og verið á móti því? Er einhver pólitískur ágreiningur um að ná árangri í rannsóknum á slysum til að bæta umhverfið og reyna að læra af slysunum og koma í veg fyrir fleiri slys? Nei, það er enginn pólitískur ágreiningur um það. En þetta virðist vera keyrt áfram af einhverjum hvötum sem mér er algjörlega ómögulegt að skilja.

Þetta mál virðist hafa orðið þannig til og ég hef sagt það í fyrri ræðum mínum um það, að markmiðið var fyrst að reyna að ná fram sparnaði. Nú liggur fyrir að þetta mun leiða af sér meiri kostnað og hann er þar að auki að mínu mati vantalinn. Það eru mjög sterk rök fyrir því, sem þeir aðilar sem um þessi mál fjalla í nefndunum hafa bent á, að með því að breyta skipan nefndanna með þessum hætti muni aukast kostnaður, svokölluð aðkeypt þjónusta, frá fagaðilum sem nú sitja í nefndunum.

Nefndirnar eru þannig skipaðar í dag að þetta er nánast áhugamál þeirra einstaklinga sem þar sitja. Það er verið að setja þetta umhverfi að mínu mati að óþörfu í algert öngstræti.

Það dapurlegasta er og það kemur fram í umsögnum að markmið laganna, sem enginn getur verið ósammála um, að reyna að fækka slysum og efla rannsóknir, munu ekki nást fram. Það segja þeir fagaðilar sem um þessi mál fjalla og bestu þekkinguna hafa.