141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það hvernig nefndirnar eru skipaðar. Í dag erum við með þrjár rannsóknarnefndir, rannsóknarnefndir sjóslysa, umferðarslysa og flugslysa, sem á að sameina í eina. Þær eru allar á opinberum vettvangi og starfa sem slíkar. Til að mynda er rannsóknarnefnd sjóslysa skipuð þannig að í henni situr einn löglærður maður, einn skipstjórnarmenntaður maður, einn vélstjóramenntaður maður, einn skipaverkfræðingur o.s.frv. Sérþekkingin á þeim þáttum sem rannsaka þarf er því fyrir hendi í nefndinni. Nú á að steypa þessu saman í eina nefnd og sérsviðum í hinum nefndunum, steypa þessu saman og minnka og búa til starfshlutfall fyrir formann nefndarinnar og svoleiðis. Við þetta eykst kostnaðurinn. Það sem gerist til viðbótar og það sem menn hafa varað við er að þetta eykur ríkisútgjöld. Samt er kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu, vegna sérþekkingar sem þarf að kaupa en er núna í nefndunum, mjög varlega áætlaður og er hugsanlega vanmetinn.

Það sem verst er er þetta skuli hafa verið gert með þeim hætti að allir sem starfa innan þessara nefnda og fjalla um þessi mál, sjómannasamtökin öll, hvort sem það eru vélstjórar, skipstjórnarmenn eða sjómenn, voru á móti breytingunum og vöruðu við þeim af því það hefur náðst gríðarlegur árangur með núverandi fyrirkomulagi. Til að mynda hefur rannsóknarnefnd sjóslysa, en ég þekki ágætlega til hennar vegna starfs míns, náð miklum trúnaði og trausti hjá sjómönnum. Það er grunnurinn að því að menn geti fengið þær upplýsingar sem þeir þurfa til að ná árangri í rannsóknum og leiða til framfara og koma hugsanlega í veg fyrir fleiri slys.

Það er með ólíkindum að hv. stjórnarþingmenn skuli ekki einu sinni staldra við þegar Slysavarnafélagið Landsbjörg segir: Í guðanna bænum gerið þetta ekki, og leggst á móti því. Það er ekki hlustað. Alveg sama hvað er sagt. Það er ekkert hlustað.