141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja örfá orð um frumvarpið sem er verið að klára hér. Við erum náttúrlega að tala um hinn svokallaða bandorm sem fylgir með frumvarpinu þar sem við ræðum í rauninni nafnabreytingar og annað. Það er hins vegar mikilvægt að árétta nokkra punkta áður en málið er klárað, góð vísa er aldrei of oft kveðin. Í þessu tilfelli verður að segjast að mjög undarlegt er að málið skuli ná fram að ganga í ljósi þess að vart er hægt að finna haldbær rök fyrir því að svo verði. Komið hefur fram í umræðunni um málið og fyrra mál að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu sem var talað um í upphafi. Það virðist ekki lengur skipta höfuðmáli að menn nái að hagræða með sameiningunni. Það hefur verið bent á að ekki hefur heldur verið sýnt fram á að breytingin muni leiða til meiri fagmennsku en verið hefur, jafnvel kannski þvert á móti. Til að undirstrika það allt saman virðist manni sem flestir þeirra umsagnaraðila sem skiluðu inn umsögnum varðandi málið eða tjáðu sig samkvæmt upplýsingum frá nefndinni sem fjallaði um það væru andvígir málinu eða hefðu í það minnsta miklar efasemdir um það.

Ég held að það sé að minnsta kosti lítið umdeilanlegt að þær rannsóknarnefndir sem við höfum í dag hafa notið virðingar og trausts og þá er það ekki ástæða til að fara í slíka sameiningu. Það er í rauninni merkilegt, frú forseti, að þeir sem keyra málið áfram skuli ekki hafa rökstutt það betur en við höfum orðið vitni að.

Í umsögnum um málið sem hafa verið sendar inn kom meðal annars fram hjá rannsóknarnefnd sjóslysa í hinu málinu, sem ég ætla mér að leyfa mér að kalla stærra málið, að alls ekki sé æskilegt að breyta því fyrirkomulagi sem nú er við rannsóknir sjóslysa. Við hljótum því að spyrja okkur af hverju farið er á skjön við það sem rannsóknarnefndin leggur til. Einnig er kvartað yfir því að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda. Það er að sjálfsögðu bagalegt en er í raun ekkert nýtt í meðferð þeirra aðila eða stjórnarflokka sem stjórna landinu í dag. Þeirra ásetningur virðist vera að ná málum í gegn sama hvað það kostar. Ágætt dæmi fyrir utan þetta mál eru að sjálfsögðu frumvörp sem lúta að breytingum á sjávarútveginum, þau á einfaldlega að keyra í gegn jafnvel þótt flestir sérfræðingar, ef ekki allir, mæli eindregið gegn breytingum sem er verið að gera o.s.frv. Það eru undarleg vinnubrögð sem maður getur ekki annað en sett spurningarmerki við.

Rétt er að árétta að í sameiginlegri umsögn aðila sem telja Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélag Landsbjargar og VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna er í rauninni deilt á að þessi leið sé farin. Í þeirri umsögn með frumvarpinu sem við ræðum hér segir að með því sé meðal annars, með leyfi forseta: „dregið úr sjálfstæði rannsóknarnefnda sem hefur verið styrkt með núgildandi lögum“. Það mál sem við ræðum núna er að sjálfsögðu lokahnykkurinn á því.

Það er einnig gagnrýnt að ekki sé sýnt fram á hver samlegðaráhrifin sem talað hefur verið um yrðu. Við vitum að þau verkefni sem nefndirnar inna af hendi í dag krefjast mikillar sérþekkingar. Því hljótum við að setja spurningarmerki við það og velta fyrir okkur hvort niðurstaðan geti orðið að sú sérþekking tapist með einhverjum hætti nái þetta fram að ganga. Það er þó alls ekki víst og ég ætla ekki að fullyrða það en velta má fyrir sér hvort slíkt geti gerst.

Það má líka velta því upp, og það kemur fram í athugasemdum, hvort þetta verði til að flækja samstarf okkar við aðrar sambærilegar nefndir, þ.e. við aðila sem t.d. rannsóknarnefnd sjóslysa á í samstarfi við o.s.frv. Það er eitthvað sem mér finnst ekki hafa verið svarað og full þörf er á að kalla eftir svörum við en þau munu varla koma úr þessu, því miður.

Það hefur heldur ekki komið fram að menn hafi staðið sig eitthvað illa við þær rannsóknir sem þeir hafa innt af hendi og því getur það varla verið ástæða fyrir því að fara þessa leið.

Frú forseti. Við hljótum einnig að velta fyrir okkur þeirri forgangsröðun sem við sjáum í þinginu núna. Við hljótum í það minnsta að geta gert athugasemdir við hana, að menn fari fram með mál eins og þetta og ætli sér að ljúka því núna þótt ekki sé búið að sýna fram á með neinum haldbærum hætti að einhver ávinningur sé af því að fara þá leið. Það virðist vera eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Við sjáum líka að á dagskrá dagsins eru mál eins og menningarstefna sem er eflaust ágætismál en kannski ekki annað en fögur loforð eða hugmyndir. Það virðist eiga að klára. Síðan erum við með stofnun hlutafélags um byggingu nýs Landspítala sem er alveg gríðarlega umdeilt mál og að mínu mati full þörf á að velta upp nýjum nálgunum á það, hvort þetta sé sú skynsamlega leið sem á að fara.

Ég sakna þess hins vegar að sjá ekki tillögur er varða til dæmis stöðu heimilanna eða uppbyggingu atvinnulífs og okkur munar um.

Ég velti líka fyrir mér hvar þau mál eru sem voru boðuð hér, t.d. út af fjárfestingum og framkvæmdum á Bakka á Húsavík. Það eru mál sem þurfa að sjálfsögðu að fá umfjöllun og umræðu í þinginu. Það er mjög bagalegt ef stjórnarflokkarnir ætla sér að koma með slík mál á lokasprettinum.

Það sem við sjáum endurspeglar þau forgangsmál sem eru uppi. Málið sem er á dagskránni í dag, undir liðnum um sameiningu rannsóknarnefnda samgönguslysa, er undarlegt, eins og ég hef áður sagt, og ekki hafa verið færð rök fyrir að fara þessa leið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Ég held að ljóst sé að því miður verður varla aftur snúið en mér sýnist málið ekki til þess fallið að auka gæði eða bæta rannsóknir á þeim slysum sem um ræðir.