141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ágæta ræðu um frumvarp sem á að innleiða hér á landi, heildarlöggjöf um neytendalán. Fram kom í ræðu hv. þingmanns að neytendalöggjöfin hjá Evrópusambandinu væri túlkuð þannig að tilgreina ætti allan kostnað sem lántakendur bera þegar þeir taka lán. Það er hins vegar ekkert í þessum frumvarpsdrögum og breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem tryggir það að lánveitendur séu upplýstir um heildarlántökukostnaðinn. Breytingartillagan sem liggur núna fyrir þinginu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kveður bara á um það að taka þurfi með verðbætur á verðtryggð lán í samræmi við verðhækkanir síðustu 12 mánuði. Slíkur útreikningur getur vanmetið verðbólguna á lánstímanum ef um er að ræða ár þar sem verðbólga er stöðug eða lítil.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji að breytingartillaga meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar dugi til. Jafnframt vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að nóg sé að gert til að tryggja að verðbólguskotið falli ekki alfarið á lántakendur, heldur sé reynt á einhvern hátt að láta verðbólguskotið falla líka á lánveitendur.