141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það skipti afar miklu máli að lántakendur hafi réttar upplýsingar. Það að sjá einhverja töflu yfir verðbólguþróunina síðustu tíu ár getur reynst lítil hjálp fyrir fólk sem ekki veit hvað það þýðir varðandi lántökukostnaðinn. Við erum bara að reikna út lántökukostnaðinn út frá verðbólgunni síðustu 12 mánuði. Þess vegna efast ég um að við séum að ná því markmiði að upplýsa fólk um raunverulegan lántökukostnað. Auk þess óska ég eftir að hv. þingmaður svari spurningunni um hvort hann telji að við eigum að tryggja að lántakendur taki aðeins hluta af verðbólguskotinu á sig og lánveitendur hinn hlutann.