141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta sé unnið með þessu móti. Ég lagði það til í andsvari við hæstv. ráðherra í gær að (Gripið fram í: Ég studdi það.) sú tilskipun sem kynnt var af ráðherra færi til umsagnar hv. efnahags- og viðskiptanefndar og við því var orðið. Er það í samræmi við orð hæstv. ráðherra í gær, og það er vel.

Hv. þingmaður spyr eðlilega um afstöðu mína til þess hvernig ég vilji sjá þetta. Í mínum augum er það svona:

Við erum með Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, umboðsmann skuldara, Neytendastofu, talsmann neytenda og hugsanlega Samkeppniseftirlitið. Allar þessar stofnanir sinna eftirliti með bönkum, kerfislegri áhættu og síðan neytendavernd á einhvern hátt. Í mínum huga snýst þetta um að vera með tvennt, tvær stofnanir. Annars vegar væri það hið hefðbundna bankaeftirlit og kerfisleg áhætta, sem núna er á tveimur stöðum, annars vegar hjá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, og meira að segja í tveimur ráðuneytum sem ég tel vera afskaplega óskynsamlegt. Ég tel að þessir þættir ættu að vera sameinaðir í einni stofnun, væntanlega undir Seðlabankanum. Hins vegar hefði ég viljað sjá þann þátt sem snýr að neytendavernd vera í einni stofnun.

Fljótt á litið finnst mér útgangspunkturinn sem ég hef vera í samræmi við það sem hv. þingmaður nefndi. Vera má að betra sé að hafa þetta allt saman í einni stofnun en hún yrði þá ansi stór. Það er margt sem bendir til þess að kannski væri betra að hafa það sem snýr að neytendavernd á einum stað. Það er ekki víst að það færi alveg saman, þ.e. hagsmunir eftirlitsaðila með bankakerfinu og eftirlitsaðila sem eiga að gæta hagsmuna neytenda. Oft fer það saman en kannski ekki alltaf. Þetta er sú sýn (Forseti hringir.) sem ég hef á þetta núna. Því miður er ég ekki með mikið í höndunum vegna þess að málið hefur ekki verið unnið.