141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir svar hv. þingmanns. Ég fylgist reglulega með vefsíðum Consumer Financial Protection Bureau, eins og hún heitir á ensku, í Bandaríkjunum. Þeir hafa verið að kalla eftir tillögum og hugmyndum um hvernig sé hægt að tryggja betur neytendavernd námsmanna þegar þeir taka námslán, því að byrðin hefur verið að aukast mjög mikið. Þetta eru ekki bara framfærslulán, heldur bætast skólagjaldalán við, sem geta reynst fólki mjög erfið.

Hluti af því lánafyrirkomulagi sem námsmenn á Íslandi búa við er yfirdráttarkerfið. Námsmönnum er vísað inn í bankana til að taka yfirdráttarlán. Yfirdáttarlán munu falla undir frumvarpið, eins og ég skil það, þannig að það er raunar hinn þátturinn sem verið er að undanskilja hér. Ég held að við séum öll sammála um að taka málið aftur inn á milli 2. og 3. umr. Ég tel ástæðu til að við ræðum málið betur og fáum betri rökstuðning fyrir því af hverju menn telja rétt að undanskilja námslánin þeirri vernd sem felst í þessum lögum.