141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[17:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum aðeins að ræða betur hvaða rök eru fyrir því að undanskilja námslánin. Ég tel miklu betra fyrir alla að námsfólki takist að greiða niður námslán sín á starfsævinni en að fá niðurfelld námslán. Þvílík niðurlæging. Það er m.a. ástæðan fyrir því að ég vil að litið sé á námslán eins og önnur lán sem greiða þarf niður á starfsævinni og til að það sé hægt þarf að greiða almennileg laun. En við á Íslandi höfum byggt velferðarkerfi okkar upp á því að veita víðtæka þjónustu á sama tíma og við erum með tiltölulega lága skatta miðað við þjónustustigið. Þjónustustigið er fjármagnað með lágum launum kvenna. Ástæðan fyrir því að við getum verið með svona víðtæka velferðarþjónustu er sú að konur í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, eru á lágum launum. Í raun og veru greiða konur niður velferðarþjónustuna í meira mæli en aðrir skattgreiðendur og þá í gegnum skattgreiðslur og lægri laun en þær mundu hafa ef þær væru í sambærilegum stöðum í einkageiranum. Það tel ég vera óásættanlegt.