141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að svo lengi sem verðbólga og laun haldist í hendur ættu áföllin ekki að koma. En við sjáum hins vegar á sögu Íslands að þau koma ansi reglulega og þá koma þessir hörðu skellir. Þá erum við með þetta fyrirkomulag þar sem við erum að búa til kerfi sem hvetur til skuldsetningar og mér finnst mjög áhugavert að hv. þingmaður virðist vera að tala fyrir skuldsetningu sem er andstætt málflutningi hans í gegnum tíðina. Þá eru þessir hópar ekki í færum til að takast á við þessi áföll og standa undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa tekið á sig.

Ég hef verið að tala fyrir því að búa til kerfi þar sem boðið er upp á öruggt húsnæði en öryggið felst ekki endilega í því að nafnið þitt sé á pappírunum heldur að þú getir leigt til langs tíma, þú getir valið um leiguhúsnæði, þú getir valið um búseturétt og síðan, ef þú ert í færum til þess, að þú getir valið að kaupa. Það eru þær tillögur sem ég hef talað fyrir hér í þinginu, talað fyrir í verðtryggingarnefndinni og talað fyrir innan Framsóknarflokksins þannig að við séum með sambærilegt kerfi og við þekkjum annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég hefði álitið að það ætti að vera eitthvað sem við hv. þingmaður ættum að vera sammála um að við eigum að hvetja fólk til að leggja til hliðar, ég nefndi frumvarp varðandi húsnæðissparnað. Og við eigum að tryggja að fólk geti búið við öryggi í húsnæði en það felst ekkert öryggi í því, eins og við höfum séð, að skuldsetja sig langt umfram það sem við getum, hvorki fyrir heilt samfélag né fyrir fyrirtæki eða heimili landsins.