141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

menningarstefna.

196. mál
[18:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp sérstaklega til þess að fagna þessari þingsályktunartillögu og hvetja menn til dáða. Áðan var rætt um hvað kæmist á dagskrá þingsins og hvað ekki og einhver hv. þingmaður hafði á orði að það væri synd að menn eyddu tímanum í mál eins og þetta á meðan atvinnumálin biðu. Það er rétt að benda á að þetta er auðvitað atvinnumál í tærasta skilningi þess orðs og verður sennilega sífellt mikilvægara og mikilvægara eftir því sem tímar líða.

Það vakti furðu mína að þetta er í fyrsta sinn sem lista- og menningararfinum eru gerð skil á þennan hátt og það er auðvitað gleðilegt, en á sama tíma minnir það okkur á hvað er stutt síðan lífið á Íslandi var bara saltfiskur og menn hugsuðu nánast ekki um neitt annað en að eiga í sig og á og lífið snerist um það. Það var veruleiki sem allt of margir forfeður okkar þurftu að lifa við en sem betur fer hefur lífið breyst töluvert og í dag gætum við ekki hugsað okkur mannlífið án menningar og lista. Ég ímynda mér að það sé að verða okkur jafnnauðsynlegur þáttur og að anda að okkur fersku lofti.

Það hefur sjálfsagt heyrst úr þessum sal fyrir ekki svo löngu síðan að fólk sem hneigist til lista sé skýjaglópar sem hafi ekkert betra við tímann að gera, séu jafnvel afætur á samfélaginu, en okkur er alltaf að verða betur og betur ljóst að þetta er efnahagslega mjög þýðingarmikil grein og ég held að við fjárfestum vel með því að sinna henni betur. Í þingsályktunartillögunni kemur fram að stjórnvöld álíta að þessi starfsemi skipti gríðarlega miklu máli efnahagslega.

Mig langar að gera að umtalsefni þann hluta sem snýr að menntun barna. Ég held að hann sé algjör lykill að því að við búum við það blómlega lista- og menningarlíf í framtíðinni sem þingsályktunartillagan stefnir að. Mjög mikilvægt er að börn fái að kynnast sem flestu í gegnum skólastarf sitt og þeim sé ekki beint of snemma á ákveðnar brautir. Það er býsna merkilegt að við virðumst ekki einu sinni geta lært af því sem við höfum vel gert, hæstv. forseti. Segja má að það hafi verið ákveðin gæfa þjóðarinnar að hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra Gylfi Þ. Gíslason var ágætis tónskáld og músikant, píanóleikari. Undir hans verndarvæng döfnuðu mjög stórir og merkilegir tónlistarskólar sem hafa svo sannarlega skilað sér inn í okkar listalíf. Hingað hafa flykkst útlendingar af hæsta gæðastandard sem auðga menningarlíf okkar og við sjáum það í dag, jafnvel í íslenskri dægurtónlist, að það einkennir margar af okkar bestu og fínustu hljómsveitum, hvort sem það eru Hjaltalín eða Valdimar eða hvað sem ég á að nefna, að þetta fólk hefur gjarnan bakgrunn í klassískri menntun tónlistar, annaðhvort út úr þessum hefðbundnu tónlistarskólum eða jafnvel FÍH.

Því er það sýnu sorglegra að okkur hefur ekki tekist jafn vel upp í því að gera til dæmis sjónlistum hátt undir höfði. Það gleymist alveg að það eru ekki bara myndlistarmenn sem byggja á þeim grunni í rauninni, heldur svo ótal margar stéttir sem fást við skapandi störf, hvort sem það eru fatahönnuðir, arkitektar, gullsmiðir eða hvað það nú mætti vera. Maður þarf ekki annað en að labba upp og niður Skólavörðustíg til þess að átta sig á því hvað er í gangi og það er margt sem bendir til þess að veruleiki þessa fólks styrkist og styrkist með hverjum deginum og þetta eigi eftir að verða okkur verulega mikilvægur hlutur í framtíðinni.

Mig langar að hnykkja á mikilvægi tvenns. Í fyrsta lagi starfslauna, þau eru gríðarlega mikilvæg og geta í mörgum tilfellum verið ígildi rannsóknarstyrkja í öðrum greinum. Öll list er ekki markaðsvæn og á ekki það vera það. Mjög mikilvægt er að þeir sem fást við tilraunakennda list, sem getur aldrei borið sig eða staðið undir sér, hafi möguleika á því að sækja sér styrki eða laun til hins opinbera. Ekki síst vegna þess að hinir sem vinna í ekki eins framsækinni list og list sem er markaðsvænni og höfðar til fjölda leita gjarnan í smiðju þessara aðila þegar þeir sækja innblástur í sína sköpun, þannig að þetta er mjög mikilvægt.

Hitt sem er drepið á og hv. þm. Skúli Helgason kom inn á eru menningarstyrkir til dreifbýlisins. Þeir eru gríðarlega mikilvægir líka. Ekkert óeðlilegt er við að megnið af þeim styrkjum sem úthlutað er til listamanna falli höfuðborgarumhverfinu í skaut, það er þekkt alls staðar að úr heiminum að listamenn þjappa sér saman í hringamiðju menningar og sækja innblástur í hvern annan, þannig að það er ósköp eðlilegt. Hins vegar þarf líka að hlúa að smærri samfélögum, jafnvel alþýðulist, og þeim sem hafa af einhverjum ástæðum áhuga á því að búa utan þessarar hringiðu. Þar eru til dæmis menningarsamningarnir gríðarlega mikilvægir.

Mig langar að nefna að kannski væri ekki úr vegi að menn skoðuðu aðeins í því sambandi hvort það er hugsanlega einhver mismunun í gangi, til dæmis á aðkomu ríkisins að Hörpu tónlistarhúsi annars vegar og Hofi menningarhúsi Akureyringa hins vegar.

Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt mál, þó það láti ekki mikið yfir sér og það sé ekki fullt hús hérna í þingsölum. Engu að síður held ég að við eigum eftir að sjá þegar árin líða að skapandi greinar eiga eftir að verða verulegur hluti af íslensku efnahagslífi.