141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum. Skömmu fyrir áramót voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um vörugjöld sem miðuðu annars vegar að því að skattleggja sykur og viðbættan sykur í matvælum og hins vegar að því að breyta innheimtukerfi vörugjalda á matvæli umtalsvert. Ég tel að með því hafi verið stigið mikilvægt skref í að gera álagningu vörugjalda skilvirkari en umfram allt var skattlagningin færð í það horf að hún hvetti til neyslu á hollari matvælum.

Umræddar breytingar voru bæði flóknar og umfangsmiklar og þar sem álagning gjaldsins er byggð á tollflokkun vöru voru öll tollskrárnúmer sem innihalda sykur eða sætuefni listuð upp í frumvarpinu auk þess sem sykurinnihald hverrar vöru var áætlað.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til örlitlar lagfæringar á þeim breytingum sem gerðar voru. Þær eru flestar smávægilegar og snúast um að skilgreina nánar hvaða tollskrárnúmer innihalda sykur eða sætuefni eða hversu hátt hlutfall sykurs eða sætuefna er í hverju tollskrárnúmeri. Þetta er gert til þess að lögin nái betur tilgangi sínum. Breytingunum er einnig ætlað að auðvelda og skýra ákveðin framkvæmdarleg atriði og eru til komnar vegna ábendinga sem ráðuneytinu hafa borist frá ýmsum hagsmunaaðilum. Ekki er búist við að þær hafi nein áhrif á tekjurnar, öllu heldur eru þær til þess að bæta framkvæmdina og ná betur markmiðum upphaflegrar lagasetningar.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.