141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr þessara spurninga er annars vegar sú að ég og fleiri þingmenn gagnrýndum hversu seint frumvarpið kæmi fram þegar það var lagt hér fram skömmu fyrir jól. Við gagnrýndum það meðal annars á þeirri forsendu að það gæfi þinginu miklu skemmri tíma en ástæða væri til til þess að fara yfir málið. Ég þekki ekki smáatriðin í málinu þannig að ég veit ekki hvort athugun á vegum þingsins, nánara samráð við hagsmunaaðila á því stigi eða eitthvað annað hefði hugsanlega getað orðið til þess að menn áttuðu sig á annmörkum laganna áður en þau voru samþykkt, í desember eða þá síðar, en tilfinning mín er sú að þetta sé einmitt dæmi um að oft er of mikill asi þegar mikilvæg mál sem tengjast skattheimtu og skattbreytingum fara í gegnum þingið. Það verður þá hrakið ef ég hef rangt fyrir mér. Það er of mikill asi og ég held að þetta sé dæmi um það. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem þingið þarf að koma að málum skömmu eftir að skattalög eða skattbreytingar eru samþykktar og gera lagfæringar af þessu tagi.

Hæstv. forseti. Ég vildi ítreka þá spurningu: Er verið að létta gjöldum af einhverjum tilteknum vörutegundum? Er þá um það lítið magn að ræða að það hafi ekki teljandi áhrif á tekjur ríkisins? Er það rétt skilið hjá mér?