141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Stuttu eftir hrun var mikill hraði á málum enda mikilvægt að menn afgreiddu hlutina hratt. Það gat maður skilið þá, en sá siður hefur haldist og er enn við lýði. Þann 22. desember 2012 voru samþykkt lög frá Alþingi með þvílíkum hraða að nú erum við, örfáum mánuðum seinna, í janúar og febrúar, að gera breytingar á þeim lögum sem hefði að sjálfsögðu átt að vera búið að ræða áður í hv. nefnd og hjá ráðuneytinu sem lagði fram tillögurnar. Þetta eru í fyrsta lagi smávægilegar breytingar á nokkru sem koma hefði átt í ljós strax, en svo eru líka felld niður nokkur tollnúmer úr viðaukanum á grundvelli þess að þau innihalda hvorki sykur- né sætuefni. Ég hef reyndar aldrei fengið skilið hvers vegna sætuefni teljast svo hættuleg að þau eru nánast tolluð eins og þau séu eiturlyf, með 40 þús. kr. skatti.

Það sem vekur athygli í þessu er að það tíðkast ekki í lögum varðandi breytingar á tollanúmerum að hafa bara einhver númer. Fella á niður einhver ákveðin númer úr viðaukanum og önnur verða sett inn. Það leiðir til þess að ákveðin hætta er á því að Alþingi samþykki að fella niður vörugjald á sykur í vörum sem ekki eru með sykri. Það þyrfti náttúrlega að bæta, þó að ég viti að vörugjöldin yfirleitt og tollalögin eru óskaplega flókin þannig að nánast enginn skilur þau. Þess vegna er svo erfitt að breyta þeim af því að það skilur þau enginn nema kannski tollstjórinn og þeir starfsmenn sem framfylgja lögunum og svo að sjálfsögðu starfsmenn fyrirtækja sem þurfa að vinna óskaplega mikið í því að setja vörur sem fluttar eru inn í ýmsa vörugjalda- og tollflokka og eins framleiðendur innan lands. Þeir vita kannski meira um málið en hv. þingmenn.

En það er ekki nógu gott að menn skuli þurfa að laga nýsamþykkt lög á Alþingi, þau eru nýorðin tveggja mánaða. Ég legg til að alla vega á næsta kjörtímabili taki menn upp aftur þann gamla, góða sið að leggja fram frumvörp tímanlega til að tími sé til að fara í umsagnir og allt ferlið og að nefndir þingsins geti haft tíma til að ígrunda þau. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um þau tollnúmer sem hér eru felld niður, að það verði eitthvað meira um það en vísað er til í frumvarpinu um breytingu á tollalögum. Ákveðin númer falla brott en ekki er sagt hvað er í þeim.

Hvað vorum við að skatta sem sykur? Það er áhugavert. Hvað fellur undir tollskrárnúmer 2202.1029? Svo er talið upp það sem á að tolla. Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvað skattað var sem sykur í tollskrárnúmeri 2905.4900 sem fellt er niður, það væri áhugavert að vita hvað var þar.

Lögin öðlist gildi 1. mars, eftir örfáa daga, og það sýnir enn hraðann og þann stutta tíma sem hv. nefnd er ætlaður til að ræða þetta, fyrir utan það að 141. löggjafarþing er senn á enda. Það eru örfáir dagar eftir af þinginu og við eigum eftir að ræða stjórnarskrána, við eigum eftir að ræða kvótamálið og svo framvegis þannig að þetta er nú orðinn dálítið mikill asi og verð ég að gera athugasemdir við það.

Svo er nokkuð sem ég er í sjálfu sér mjög mikið á móti, það er að hv. þingmenn sem eru sumir ekki búnir að ná fimmtugsaldri séu að stýra neyslu fólks sem er mikið eldra og segja við það: Heyrðu, þú átt ekki að borða þetta, þú átt ekki að borða hitt. Þú átt að bursta í þér tennurnar á kvöldin og svo framvegis. Þeir hafa vit fyrir fólki með forsjárhyggju: Þú átt ekki að borða sykur og þú átt ekki að borða sætuefni. Við ætlum að skattleggja það óskaplega til þess að þú hættir nú þessum ósið.

Reyndar held ég að verðteygni sé ekkert voðalega mikil, ég á nú eftir að sjá neyslu á sælgæti minnka við þetta. Mér finnst hún reyndar allt of mikil en hver og einn hlýtur að meta hvað hann vill innbyrða af sykurefni og slíku. Þetta er nefnilega miklu frekar spurningin um upplýsingar. Varðandi reykingar hefur tekist að upplýsa fólk og ég held að það sé að mörgu leyti skynsamlegra en að banna. Fólk á að vita hvað það er að gera. Ég er mjög hlynntur að upplýsa menn um til dæmis hvaða vörur eru hollar og hverjar eru óhollar o.s.frv. og vil láta þar við sitja. Ég vil ekki að ríkið hafi áhrif á neyslu fólks í gegnum skattlagningu.