141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um markmiðin með þessari framkvæmd. Ég er algjörlega sammála honum í því að auðvitað eigum við áfram að hafa þessa hagræðingu að markmiði. Ég hef ekki heyrt að menn séu að fara ofan af því, þvert á móti.

Við erum að fara áfram með þessa framkvæmd og treystum okkur til þess að fara með hana í opinbera framkvæmd vegna þess að við sjáum fram á hagræðingu. Það er hagræðing fyrir ríkissjóð og líka ákveðin hagræðing í starfseminni á Landspítalanum en þetta er líka risastórt heilbrigðispólitískt mál.

Erum við búin undir þær kröfur sem gerðar verða til góðrar heilbrigðisþjónustu í allra nánustu framtíð? Miðað við núverandi húsakost þá erum við það ekki. Þessi leið sem við ætlum að fara, að bæta húsakost með þessum hætti, er ekki bara til hagræðingar heldur er þetta líka risastór heilbrigðispólitísk spurning. Mér hefur ekki þótt skorta á neina forustu hjá þessari ríkisstjórn í því efni.