141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég glugga öðru hverju í stjórnarskrána mér til hugarhægðar og hjálpar. Þar stendur í 41. gr., með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Í greininni þar á undan stendur, í miðri grein:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Að störfum hefur verið nefnd sem er að hanna nýjan spítala og reka hann áfram og ég fékk svar við því að vel yfir milljarður hefði farið í þá nefnd. Er talað um það í fjárlögum eða fjáraukalögum eða er lánsheimild til að greiða það fé af hendi, þannig að við höldum okkur við stjórnarskrána? Ég vil spyrja að þessu.

Um leið og við stígum fyrsta skrefið erum við búin að skuldbinda ríkissjóð um 44 milljarða, þarf það þá ekki að koma inn í fjárlög, bara sem allra fyrst?