141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki betur en heimild hafi verið fyrir þessu í fjárlögum á hverju ári, þ.e. þessari leiguleið sem við erum nú að hverfa frá, í 6. gr. heimild, að vinna að undirbúningi stofnunar nýs spítala. Það sem verið er að leggja til núna er formbreyting, þ.e. breytingar á lögum þannig að við getum haldið áfram með verkefnið á nýju formi. Við höfum hingað til ætlað að fara þessa leiguleið eins og ég fór ítrekað yfir í ræðu minni. Við erum að breyta forminu yfir í opinbera framkvæmd. Það þýðir ekki að með þessu frumvarpi séum við að taka ákvörðun um fjármagn í þetta. Það er gert í fjárlögum og verður gert í fjárlögum hvers árs þangað til þessu verkefni er lokið og það er ekki verið að leggja neitt annað til.

Ástæðan fyrir því að mér finnst skipta máli að þetta mál klárist sem fyrst er sú að þá getum við byrjað strax að koma þessu fyrir inn í ríkisfjármálaáætlun og vonandi einhverjum hluta, eins og hönnuninni, inn í fjárlög á næsta ári. Það er stóra verkefnið og ég held að okkur sé ekki til setunnar boðið. Við þurfum að fara að láta þennan draum um nýjan Landspítala rætast.