141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á það sem ég nefndi í ræðu minni um að það væri nú ekki sambærilegur sparnaður í lyfjakostnaði og á öðrum hlutum. Þegar menn reikna út hagræðinguna sem verður af verkefninu er mjög mikilvægt að eftirfarandi komi fram: Hver er raunsparnaðurinn? Er það 1% eða er það 0,5% þegar menn tala um að raunsparnaðurinn sé 7% af heildarútgjöldunum eins og það var lagt upp í upphafi? Það er mikilvægt að það liggi fyrir þar sem um 75% af rekstrarkostnaði Landspítalans eru laun. Það gefur augaleið að menn spara meira á sumum sviðum en öðrum. Það er mikilvægt að þessar upplýsingar liggi alveg klárt fyrir þegar menn fara í gegnum þær til þess að þeir geti tekið raunsæjar ákvarðanir.

Við megum heldur ekki gleyma því að á árunum 2009–2013 hefur verið skorið niður um 5,3 milljarða á Landspítalanum að raunvirði, það er um 12% hagræðing eða niðurskurður á því tímabili. Við verðum því að átta okkur á því að það verður líka að vera skýrt um hvað verið er að tala, hvort um er að ræða sparnað inn í framtíðina, vegna þess að þjóðin er að eldast, eða af þeim rekstri sem nú er. Það er mjög mikilvægt að allir séu á sömu blaðsíðu. Það benti ég á í ræðu minni.

Hv. þingmaður nefndi líka að menn yrðu að forgangsraða í ríkisfjármálum, ég benti líka á það, það er bara skoðun mín. Það er sami ríkissjóður sem greiðir til þess að byggja Landspítalann og sem greiðir fyrir að byggja hús íslenskra fræða o.s.frv. Þess vegna verðum við og eigum að forgangsraða til verkefna. Það er skoðun mín og ég fer ekkert ofan af henni. Síðan getur hv. þingmaður auðvitað sagt: Ja, það þýðir ekkert að segja að við eigum ekki fyrir einhverju, við verðum samt að gera það. Þess vegna er mikilvægt að taka umræðu um forgangsröðun í ríkisfjármálum.