141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki í síðasta andsvari mínu í þessari lotu að frýja þingmanninum kjarks því að ég veit að skortur á kjarki mun á endanum ekki ráða því hvort hv. þingmaður tekur ákvörðun sem er mér að skapi í þessu máli eða ekki.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ég hef freistast til þess í umræðunni að ræða um fleira en bara formið sem við erum að ræða. Ég hef freistast til þess að tala um að það að byggja nýjan spítala sé gríðarlega mikilvægt verkefni sem við verðum að ráðast í. Við verðum að tryggja það, og ég ætla að láta það vera lokaorð mín í umræðunni í dag nema ég komi í fleiri andsvör, að við búum þá umgjörð um móðurskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu að sómi sé að því.