141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er snúið af því að ef ég fer ekki rangt með var Sjálfstæðisflokkurinn líka mjög hlynntur því að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Ég mundi því halda að þessi forgangsröðun væri nákvæmlega í anda þess sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti um síðustu helgi. Þetta mun auka fjárfestingu og vissulega er um opinbera fjárfestingu að ræða.

Hv. þingmaður bendir á að hún vilji álver í Helguvík. Eina hindrunin þar eru deilur á milli þeirra sem ætla að reka álverið og þeirra sem ætla að selja þeim orkuna, það eru deilur einkaaðila um orkuverð. Eins hefur verið erfitt fyrir aðila hér á landi að fjármagna sig. Það hefur ekkert með skattstefnu ríkisstjórnarinnar að gera því að skattumhverfi fyrirtækja er hagfelldara hér á landi ef eitthvað er en í öðrum Evrópuríkjum, að undantöldum kannski tveimur, þremur ríkjum. Það er einkenni á hagkerfum sem eru að koma út úr svo gríðarlega alvarlegu efnahagstjóni sem hrun fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins var að það hægir á allri fjárfestingu vegna skulda fyrirtækja og vegna aðstæðna í hagkerfinu og erfiðleika með að afla lána. Þar af leiðandi er mikilvægt að hið opinbera leiði fjárfestingar út úr erfiðum tímabilum.

Mér finnst einkennilegt í ljósi samþykkta Sjálfstæðisflokksins um forgangsröðun í þágu heilbrigðiskerfisins og áherslu á fjárfestingar að það sé eitthvert vandamál fyrir þingmenn þess flokks að samþykkja frumvarp sem þetta.