141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður er mjög upptekinn af ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins vil ég gjarnan fá að lesa upp ályktun landsfundarins um þá framkvæmd sem við erum að tala um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landsfundur telur að fyrirliggjandi hugmyndir um nýbyggingu þarfnist endurskoðunar.“

Ég tala því alveg í samræmi við ályktanir landsfundarins. En það er alveg rétt að líka var talað um að forgangsraða fjármunum, tíma og verkefnum skattborgaranna betur en gert hefur verið að undanförnu. Ég mundi segja að þetta snerist um að forgangsraða fyrir fólk. Það býr fólk úti um allt land sem fær ekki viðunandi heilbrigðisþjónustu í augnablikinu, grunnþjónustu. Enginn stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar getur verið stoltur af því hvernig viðskilnaðurinn við heilbrigðiskerfið er eftir þessi fjögur ár. (Gripið fram í.) Jú, segir hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Það sýnir að við erum aldrei sammála um neitt.

Grunnþjónustan í heilbrigðiskerfinu er verri núna en hún hefur verið. Fólk er ekki að fá … (SII: Eigum við ekki að rifja upp af hverju?) Við skulum alveg rifja upp af hverju. Við skulum rifja upp að við höfum verið að forgangsraða í þágu einhvers alls annars (Gripið fram í: Hvers?) en þess sem við eigum að vera að sinna. (SII: Vaxtaskulduir ríkisins.) Af hverju erum við að tala um að setja 85 milljarða í þetta verkefni á meðan við getum ekki einu sinni tryggt öryggi fæðandi kvenna í Vestmannaeyjum? Af hverju erum við að tala um að setja 85 milljarða í þetta verkefni á meðan við getum ekki sett 3 milljónir í örugga sjúkraflutninga á Reykjanesbrautinni? Er það grunnþjónustan sem búið er að vera að forgangsraða í? Ég segi nei.