141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að koma í veg fyrir misskilning þá var ég ekki að halda því fram í ræðu minni að spítalinn væri byggður til að færa verkefni frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Ég var að rekja hver þróunin hefur verið á síðustu árum. Ég er ekki sammála því sem hæstv. ráðherra sagði að það hafi verið unnið eftir stefnu frá árinu 2007, það er þá bara að hálfu leyti vegna þess að færa átti verkefni til þeirra staða með breyttri samsetningu. Ef ég tek til dæmis skurðstofurnar á Suðurnesjum, sem eru mér hugleiknar, þá átti að færa aðgerðir frá St. Jósefsspítala þangað og finna annað hlutverk fyrir St. Jósefsspítala, sem mig minnir að hafi verið öldrunarþátturinn.

Sú stefna var hugsuð þannig að færa átti verkefni á milli sjúkrahúsanna í Kraganum til að auka sérhæfingu og finna not fyrir þá innviði, ef ég má nota það orð, þær stofnanir sem við eigum úti um allt land. En afraksturinn er þessi: St. Jósefsspítali stendur tómur, skurðstofurnar í Reykjanesbæ standa tómar og svona er þróunin víða um land. Það er því ekki rétt að þetta sé einhver stefna sem núverandi stjórnvöldum var færð, og ef þetta var eitthvað sem menn voru ekki sáttir við hefðu þeir bara átt að breyta því.

Það sem ég er að segja er að við eigum ekki þessa peninga núna. Ég sagði það ítrekað í ræðu minni og í andsvari: Ef við ættum fyrir þessari framkvæmd væri ég sú fyrsta til að samþykkja hana. Það eru breyttu forsendurnar sem hæstv. ráðherra spurði um, þess vegna snýst ég gegn þessu. Og ég er ekki að finna mér einhverjar ástæður. Ég horfi á stöðuna (Forseti hringir.) út frá þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum. Og varðandi hagræðinguna sem hæstv. ráðherra talar um að eigi að borga fyrir þetta — (Forseti hringir.) eigum við ekki að segja að ég hafi lesið of margar skýrslur og heyrt af of mörgum opinberum framkvæmdum sem fara (Forseti hringir.) fram úr áætlunum til að gleypa það hrátt.