141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að vera jákvæð þá deili ég svo sannarlega þeirri sýn að við verðum með gott og öflugt heilbrigðiskerfi í framtíðinni og þar er til mikils vinnandi.

Aðeins um skurðstofureksturinn á Suðurnesjum. Það er rétt að núverandi hæstv. velferðarráðherra var honum ekki mótfallinn og það er líka alveg rétt að það fundust engir aðilar til að sinna þeim verkefnum þegar hæstv. ráðherra kom inn sem þriðji heilbrigðisráðherrann í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég vil bara minna á að tveir fyrirrennarar hans, einn sem situr hér í salnum, voru ekki móttækilegir fyrir þeirri hugmynd (ÁI: Móttækilegir?) að einkaaðilum yrði leyft að leigja þessar skurðstofur. Já, þeir voru ekki móttækilegir fyrir því, ég skal bara segja það á hreinni og klárri íslensku, þeir voru algjörlega mótfallnir því og bönnuðu það (Gripið fram í.) að leigja út þessar skurðstofur. (GÞÞ: Já, þeir gerðu það.) Þannig var komið í veg fyrir að hluti þess tíma sem var ónýttur á skurðstofunum við sjúkrahúsið í Keflavík væri nýttur í þágu einkaaðila.

Hvert var markmiðið? Að halda rekstri skurðstofanna opnum til að tryggja öryggi og þjónustu við borgarana á svæðinu. En nei, þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson, og þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir, komu í veg fyrir það. Þess vegna, (Gripið fram í.) hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson, voru þeir aðilar sem höfðu áhuga á að reka skurðstofurnar löngu farnir þegar þennan hæstv. ráðherra bar að garði, því miður. (Velfrh.: Það vantaði …)