141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér býsna stórt og mikið mál, ég held að um það þurfi ekkert að deila. Frá því að ég settist á þing 2009 hef ég haft miklar efasemdir um þessa framkvæmd og hef ekkert leynt því hér. Um er að ræða umfangsmikla framkvæmd og að sjálfsögðu gríðarlega kostnaðarsama og í rauninni skiptir kannski ekki öllu í þessu hvort farin verður þessi svokallaða leiguleið eða valin opinber framkvæmd. Við erum að tala um svipaðar tölur og svipaðar stærðir nema það horfir kannski eitthvað öðruvísi við sem lýtur að ríkisreikningnum.

Það sem ég hef efasemdir um í þessu er einmitt umfangið og það hvort við höfum í raun efni á því að ganga svona langt í þessum breytingum og framkvæmd sem þarf að eiga sér stað. Ég segi „þarf“ að eiga sér stað því að ég held að allir séu sammála um að aðbúnaður á Landspítalanum, hvort sem er fyrir starfsmenn eða sjúklinga, sé ekki í lagi og þurfi að bæta.

Ég hef líka lengi velt því fyrir mér hvort sú áhersla sem mér finnst vera, ég ætla ekki að taka sterkar til orða, við uppbyggingu í kringum Landspítalann sé sú rétta, sé sú leið sem á að fara. Hugsanlega væri hægt að auka og styrkja með einhverjum hætti sjúkrahúsin við höfuðborgina, Akranes, Selfoss og Suðurnesin, og létta á Landspítalanum. Ég er enginn sérfræðingur í þessu öllu saman en hef velt þessu svolítið fyrir mér.

Það sem mig langar að ítreka er að það er eðlilegt að skoðanir um þessa framkvæmd séu skiptar innan stjórnmálaflokkanna, milli stjórnmálaflokka o.s.frv. Það er ekkert óeðlilegt þegar stærðin er sú sem hér um ræðir. Mér finnst hins vegar áhyggjuefni ef ég skil umsögn fjárlagaskrifstofu rétt því að enn eru uppi óvissuþættir um framkvæmdina, áhrif hennar og mögulega þá áhrifaleysi líka. Ég fer aðeins í gegnum það á eftir.

Um 1. gr. þessa frumvarps stendur í athugasemdum við einstakar greinar, með leyfi forseta:

„Breytingin felur í sér að hlutverk félagsins verður þrengra en í núgildandi lagagrein þar sem ekki er lengur til staðar heimild til að semja um að ríkið taki byggingarnar á langtímaleigu að loknu útboði.“

Það er sem sagt horfið frá leiguleiðinni í þessum hluta.

Síðan segir:

„Jafnframt hefur breytingin það í för með sér að fellt er niður það skilyrði að fyrir undirritun samninga að loknu útboði skuli leita samþykkis Alþingis með almennum lögum fyrir töku tilboða.“

Þetta skil ég þannig að í raun sé verið að kúpla Alþingi út þannig að Alþingi sé ekki með neinar skoðanir þegar komin eru tilboð. Hugsanlega skil ég þetta ekki rétt (Gripið fram í.) og þá kemur bara skýring á því. (Velfrh.: … fjárlögin verða samþykkt …) Já, að sjálfsögðu vitum við að fjárlög eru samþykkt. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Ekki samtöl í þingsal.)

Ég er bara að lesa upp það sem stendur hér og get endurtekið það, hæstv. ráðherra. Það er rétt sem hér var kallað fram í, að sjálfsögðu kemur þetta fram í fjárlögum en hér stendur hins vegar að verið sé að tala um einstök útboð ef ég skil þetta rétt. Það verður þá bara leiðrétt ef ég er á rangri leið — úr ræðustól vonandi, ekki úr sæti.

Ég ætla að drepa niður í umsögn fjárlagaskrifstofu á nokkrum stöðum. Nú stendur yfir 1. umr. um málið þannig að töluverð umræða á eftir að fara fram varðandi þetta mál. Það er gert ráð fyrir ákveðinni hagræðingu og komið inn á það á bls. 11 í þessum athugasemdum. Síðan er á bls. 12 rætt um að unnið hafi verið út frá ákveðinni skilgreiningu varðandi hönnun o.s.frv. Svo segir, með leyfi forseta:

„Þá liggja fyrir kostnaðaráætlanir NLSH“ — þ.e. Nýs Landspítala ohf. — „sem hafa verið endurskoðaðar og rýndar á vegum félagsins miðað við árslok 2012. Í þessari umfjöllun er gengið út frá þessum áætlunum félagsins og hefur engin önnur sjálfstæð kostnaðargreining á verkefninu farið fram af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.“

Mig langar að setja spurningarmerki við það hvort ekki hafi einmitt verið ástæða til að gera sjálfstætt mat á þessu og greiningu.

Síðan ætla ég að fara á bls. 15 og lesa aðeins upp, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi er hér sett fram lausleg áætlun um fjármögnunarkostnað við verkefnið. Fyrir liggur að ríkissjóður hefur að óbreyttu ekkert svigrúm til svo umfangsmikilla framkvæmda ef ná á settum markmiðum í ríkisfjármálum. Að óbreyttu verður í þessari áætlun að líta svo á að ríkið taki lán til að fjármagna árlega framkvæmdaáfanga eða, sem kemur í sama stað niður, að ríkið geti ekki greitt niður skuldir sínar eins og áformað hefur verið vegna framkvæmdanna og beri þar með hærri vaxtakostnað fyrir vikið.“

Svona getur raunveruleikinn litið út. Hér er kveðið á um óvissu um söluandvirði þeirra húseigna sem á að selja. Auðvitað vitum við öll að það er eðlilega mikil óvissa um slíkt.

Hér eru áfram slegnir varnaglar, ég leyfi mér að orða það þannig, í umsögn fjárlagaskrifstofunnar og ætla ég að lesa aðeins á bls. 16 um þær tekjur sem geti komið af framkvæmdinni. Hér segir, með leyfi forseta:

„Hér er gengið út frá þeirri einföldun að ekki verði flutt inn erlent vinnuafl og að þeir sem vinni við framkvæmdina komi af atvinnuleysisskrá með beinum eða óbeinum hætti þannig að ríkissjóður hefði ekki haft miklar tekjur af vinnu þeirra í öðrum verkefnum.“

Hér held ég að verið sé að velta vöngum fyrst og fremst yfir því hvað geti gerst.

„Á móti þessum beinu tekjuáhrifum vegur að fjármagna þyrfti útgjöldin við framkvæmdirnar á endanum úr rekstri ríkissjóðs, svo sem með skattahækkunum, sem minnka ráðstöfunartekjur og þar með neyslu og fjárfestingar, eða með jafnmiklum niðurskurði annarra málaflokka, t.d. í samgönguframkvæmdum. Telja má líklegt að margfeldisáhrif slíkra ráðstafana á tekjuöflun ríkissjóðs mundu leiða til þess að jákvæð tekjuáhrif byggingarframkvæmdanna verði mun minni og jafnvel engin þegar er upp er staðið.“

Ég ætla að leyfa mér að túlka þetta þannig að fjárlagaskrifstofan sé að vara við því að menn áætli of miklar tekjur ríkissjóðs af framkvæmdunum, þetta geti núllast út og tekjurnar jafnvel orðið engar.

Það er hægt að hafa fleiri orð um þetta. Hér er til dæmis rætt um þjóðhagsáhrif og fyrirvara vegna þeirra. Neðst á bls. 16 segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga þann fyrirvara að í mati á þjóðhagsáhrifum fjárfestingarinnar með þessum hætti eru ekki jafnframt reiknuð sérstaklega áhrif af því að ríkið mun fyrr eða síðar þurfa að fjármagna hana með skattahækkunum eða með lækkun annarra útgjalda, sem líklegt er að muni hafa álíka mikil samdráttaráhrif á hagkerfið þótt það kynni að koma fram á öðrum tímaskeiðum.“

Það er í rauninni verið að segja, ef ég er að túlka þetta rétt, að það sé mjög hæpið að framkvæmdin skili einhverjum áhrifum inn í samfélagið þegar upp er staðið.

Síðan segir á bls. 17, með leyfi forseta:

„Eins og áður segir var í upphaflegum áformum um byggingu nýs Landspítala gengið út frá því að með nýju húsnæði yrði náð fram hagræðingu sem svaraði til 7% af rekstrarkostnaði til að unnt yrði að standa undir framkvæmdakostnaðinum með leigugreiðslum. Fjárlagaskrifstofa hefur talið þessar forsendur vera afar hæpnar og í ljósi framangreinds samdráttar í rekstrarkostnaði LSH“ — það er sem sagt búið að reikna hann frá — „sem síðan hefur þurft að eiga sér stað vakna spurningar um í hvaða mæli raunhæft væri að gera ráð fyrir frekari rekstrarsparnaði með starfsemi í nýjum og breyttum húsakosti.“

Síðan segir aðeins neðar:

„Í þessu sambandi er rétt að benda á að rekstraráætlun um nýja húsakostinn hefur ekki verið lögð fyrir með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í lögum um opinberar framkvæmdir. Á þessu stigi eru því ekki fyrir hendi upplýsingar um hversu mikil kostnaðaraukning er talin verða í húsnæðisrekstrinum sem slíkum.“

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það eru töluverðir ágallar á málinu eins og það er statt í dag og mikilvægt að fjárlaganefnd kafi ofan í þessar athugasemdir sem og aðrar sem gætu komið fram.

Með leyfi forseta ætla ég líka aðeins að grípa niður í bls. 18:

„Ljóst er að verkefni af þessari stærðargráðu rúmast ekki innan núverandi ríkisfjármálaáætlunar, hvorki til skemmri tíma litið hvað varðar markmið um að ná afgangi á heildarafkomu ríkissjóðs né til lengri tíma litið hvað varðar markmið um að sá afgangur fari vaxandi og dugi til að lækka skuldabyrði hins opinbera umtalsvert …“

Ríkisfjármálaáætlunin, sú sem síðast var gerð, ætti að hafa tekið mið af þessu. Ef menn hafa horft á þetta verkefni árum saman ætti ekki að hafa komið á óvart að það biði og að menn ætluðu að fara í það. Það hlýtur í það minnsta að vera eðlilegt að gera við það athugasemdir að áætlunin skuli ekki hafa tekið mið af þessu.

Virðulegi forseti. Áfram er rætt um það í þessari umsögn að skoða þurfi forgangsröðunina varðandi þá fjármuni sem ríkið hefur úr að spila í öðrum fjárfestingum og loks er talað um að í lögfestingu á þessu frumvarpi felist hvorki ákvörðun Alþingis um að heimila framkvæmdirnar né veita fjárheimild til þeirra. Það er að sjálfsögðu nokkuð sem við gerum okkur fyllilega grein fyrir.

Það er mikilvægt að fjárlaganefnd fái þau skilaboð frá okkur þingmönnum eftir þessa umræðu að ofan í málið verði kafað mjög gaumgæfilega, farið yfir þær athugasemdir og varúðarorð sem koma fram, spurningum svarað og kallað eftir athugasemdum.

Herra forseti. Ég held að líka sé nauðsynlegt að benda á það að aðilar sem eru áhugasamir um að bæta húsakost og umhverfi Landspítalans hafa komið fram með aðrar hugmyndir. Nægir þar að nefna hugmyndir Páls Torfa Önundarsonar læknis og Magnúsar Skúlasonar arkitekts. Ég er hér með athygliverða grein sem Páll Torfi skrifaði í Morgunblaðið. En enn og aftur skiptir mestu að menn setjist yfir málið og velti fyrir sér hvort við getum farið í þessa framkvæmd núna. Ég hef efasemdir um það og tel að skoða þurfi málið upp á nýtt.