141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það fór sem vænta mátti að umræðan um þetta frumvarp, sem er tæknilegs eðlis í reynd, snerist upp í almenna umræðu um heilbrigðismál sem er gott. Ég held að mjög mikilvægt sé að við tökum slíka umræðu hér í þessum sal og af mörgu er að taka í þeirri umræðu sem hér hefur verið.

Hér hefur verið drepið á áhrifunum af hruninu og hvernig þau hafa leikið heilbrigðisþjónustuna í landinu. Af því tilefni, herra forseti, vil ég segja þetta: Bankarnir hrundu, ríkissjóður var nærri farinn á hausinn, Seðlabankinn var nærri farinn á hausinn en heilbrigðisþjónustan stóð og hún stendur enn. Hún hrundi ekki og þrátt fyrir allan þann niðurskurð sem núverandi ríkisstjórn hefur neyðst til að grípa til allan þennan tíma frá hruni þá hefur alltaf verið passað upp á að niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni sé helmingi minni en á öðrum sviðum. Núna erum við komin fyrir vind og á árinu 2013 er enginn niðurskurðarkrafa gerð til heilbrigðisþjónustunnar, ekki heldur á Landspítalanum. Þvert á móti var bætt í síðastliðið haust, reyndar í framkvæmdafé til þess að kaupa tæki og búnað, þannig að á árinu 2013 getum við sett nær því einn milljarð króna inn í kerfið og veitir ekki af.

Herra forseti. Það er dýrt að vera fátækur. Þetta heyrir maður oft og það er rétt. Það er sorglegt að hlusta á að menn skuli rugla saman rekstri og rekstrarkostnaði annars vegar og nýframkvæmdum og fjárfestingum hins vegar. Við sem sitjum hér yfir tölum daglangt, við erum alltaf að skoða tölur í fjárveitingavaldinu hér í Alþingi. Við vitum að þetta er tvennt ólíkt. Rekstrarkostnaður Landspítalans er yfir 30 milljarðar króna á ári hverju og talið er að með sameiningu spítalans á einn stað og með bættum tækjabúnaði og nútímalegri aðstöðu sé hægt að spara 2 til 3 milljarða króna á ári. Það er fljótt að borga sig og það er forsendan fyrir því að við segjum: Það er dýrt að gera ekki neitt. Við höfum ekki efni á því að gera ekki neitt. Það að gera ekki neitt skaðar ekki bara heilsu og ógnar ekki bara öryggi starfsmanna og sjúklinga heldur kostar það líka peninga og er rétt að taka það fram fyrir þá sem helst vilja horfa á peninga í þessu sambandi.

Þó að hér hafi mörg orð fallið um slæman aðbúnað og erfiðleika á spítalanum þá er sem betur fer ekki allt á ystu brún þar, þótt við stefnum kannski þangað ef við ætlum ekki að ljúka þessu máli hér núna á þessu þingi. Við höfum mjög góða heilbrigðisþjónustu, við höfum gott og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk og við höfum persónulega þjónustu og mikinn metnað í að veita sem besta umönnun og þjónustu. Allar kannanir sem hafa verið gerðar þar sem árangur er borinn saman annars vegar á háskólasjúkrahúsum og hátæknisjúkrahúsum í Evrópu eða á Norðurlöndum sýna að árangurinn á Landspítalanum er mun betri heldur en í samanburðarlöndunum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að minna á að Landspítalinn hefur komið gríðarlega vel út í öllum reglubundnum könnunum OECD, þar sem fylgt er eftir lifun sjúklinga eftir til að mynda kransæðastíflur og heilablóðfall. Í október sl. kom í ljós að fleiri lifa eftir stóra brjóstholsáverka á Íslandi heldur en annars staðar á Norðurlöndum, samkvæmt stórri samanburðarrannsókn sem tók til fimm ára tímabils. Í september sl. kom í ljós að í kjölfar skurðaðgerða á Landspítalanum þá deyja fæstir þar miðað við 498 sjúkrahús í 28 Evrópulöndum.

Herra forseti. Eðlilegt er að við munum eftir þessu þegar við tölum um að við þurfum að gera gott sjúkrahús betra, sem betur fer er góð þjónusta á Landspítalanum. Hún er það og starfsmenn leggja sig verulega fram. Því getum við með sanni sagt að þetta er gott sjúkrahús, en þörf er á að gera betur.

Herra forseti. Ég fagna því að málið sé loksins komið inn á borð Alþingis. Legið hefur fyrir, allt frá því í fyrrasumar eða fyrravor, að stefnt yrði að opinberri framkvæmd en ekki einkaframkvæmd eða samstarfsframkvæmd með lífeyrissjóðunum eins og lagt var upp með árið 2009. Við áttum von á frumvarpi af þessu tagi með fjárlagafrumvarpinu og ég vil minna á, af því að menn eru að tala hér um sjö daga, að í upprunalegu áætluninni var getið til um að verið væri að vinna að undirbúningi þess að setja Landspítalann í opinbera framkvæmd.

Við áttum líka von á frumvarpinu við 2. umr., en við 3. umr. þegar við afgreiddum fjárlögin lá fyrir yfirlýsing ríkisstjórnar frá 30. nóvember sl. um að farið yrði í opinbera framkvæmd. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu fjárlaga fyrir lok árs 2012 kom fram að frumvarp þess efnis mundi koma inn fljótlega eftir áramót og nú er það komið. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað splunkunýtt frumvarp sem hafi orðið til í gær. Að baki því liggur margra ára ef ekki áratuga undirbúningur og það eru ekki sjö dagar heldur nær 700 þingdagar sem búnir eru að fara í þetta, af því að hér voru nefndir sjö dagar.

Herra forseti. Ég skora á þingmenn að veita þessu frumvarpi brautargengi. Þetta er tæknilegt mál sem í reynd þarf ekki að hafa svo mörg orð um. Þetta er mál sem þarf að komast inn á borð fjárlaganefndar sem allra fyrst til athugunar og frekari vinnslu. Síðan þarf það að koma hingað inn í þingsal aftur og verða að lögum fyrir þinglok. Það má ekki lengur dragast að hefja uppbyggingu nýs Landspítala. Ekki aðeins vegna þess að það kostar okkur of mikið að gera ekki neitt, eins og ég sagði áðan, heldur líka vegna þess að húsakostur og aðbúnaður þarna ógnar, ef ekkert verður að gert, öryggi sjúklinga og starfsmanna.

Herra forseti. Það hefur verið óvenju góð og breið samstaða um þetta stóra mál hér á þessum 10–15 árum sem það hefur verið í farvatninu. Enda hljóta allir sem kynna sér málið að komast að þeirri niðurstöðu að brýn þörf er á að byggja nýjan spítala. Það þarf að reka endahnútinn á sameiningu spítalanna þriggja hér í Reykjavík, hagræða í rekstrinum og gera góðan spítala betri, fyrir veikustu sjúklingana í landinu, fyrir flóknustu aðgerðirnar sem gera þarf og hægt er að gera í landinu, fyrir meira en 100 þúsund sjúklinga á ári hverju, fyrir fimm þúsund starfsmenn, fyrir fleiri hundruð nema á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu, fyrir fólkið í landinu.

Við þurfum að gera það og sagan sýnir, ef við skoðum hana, að við höfum verið sammála um þetta sem betur fer. Fjórir stjórnmálaflokkar hafa komið að undirbúningi þessa máls sem við erum nú með lokahnykkinn hér fyrir framan okkur, enda langur tími. Ég vil nefna þrjá fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, Ingibjörgu Pálmadóttur, Jón Kristjánsson og Siv Friðleifsdóttur. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins vil ég nefna Guðlaug Þór Þórðarson. Ég vil líka nefna forvera minn í embætti heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson og sjálf var ég svo gæfusöm að fá að koma að þessu verkefni haustið 2009. Þá undirritaði ég samstarfssamninginn við lífeyrissjóðina ásamt forsætisráðherra fyrir hönd ríkisins og núna hefur Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, staðið í stafni ásamt núverandi fjármálaráðherra í þessu máli. Hér er ég að tala um ráðherra Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar sem hafa undirbúið þetta mál.

Herra forseti. Eðlilega voru áætlanir allar endurmetnar í kjölfar hrunsins. Umfang spítalans og bygginganna hefur allt verið minnkað þannig að nú er á teikniborðinu, og búið að hanna um 20% af því, nýtt sjúkrahús af hóflegri stærð þar sem hægt er að sameina legudeildir, skurðstofur og bráðadeildir á einum stað. Hægt verður að nýta það besta úr húsakostinum á Landspítalalóðinni, meðal annars Barnaspítalann sem er ekki eldri en frá árinu 2003. Svo er rétt að benda á að vegna nálægðar við Háskóla Íslands mun háskólinn reisa húsnæði yfir heilbrigðisdeildir sínar í nánu samstarfi eða beint við spítalann.

Bent hefur verið á það að þetta frumvarp sé tæknilegt, það er formbreyting, það er alls ekki eðlisbreyting. Við erum einfaldlega að hverfa frá fyrri áformum um fjármögnunarleiðina og fara yfir í venjulega opinbera framkvæmd sem við þekkjum öll mætavel. Hægt er að rifja upp af hverju hin leiðin var farin á sínum tíma árið 2009 þegar ríkissjóður var galtómur og ómögulegt að skuldbinda ríkissjóð með nokkrum hætti. Sem betur fer er ekki svo illa fyrir okkur komið núna, það er miklum mun betur fyrir okkur komið. Við eigum því að geta farið þá leið sem hér er lagt upp með í frumvarpinu og prjónað þetta stóra og mikilvæga verkefni inn í fjárfestingaráætlunina fram til ársins 2019, eins og hér er gert ráð fyrir einum 45 milljörðum króna. Síðan er opið fyrir það í frumvarpinu og hefur komið fram í máli ráðherra að leiguleiðin eða samstarfsframkvæmd verði viðhöfð um minnstu byggingarnar þrjár. Hér var spurt: Af hverju skyldum við gera það? Ég vil benda á að við eigum kannski að gera það út af atvinnustiginu í landinu, sem okkur er oft tíðrætt um hér í þessum sal.

Herra forseti, við eigum að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar í landinu, það gerum við best með því að samþykkja þetta frumvarp og hefjast handa við byggingu nýs Landspítala.