141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég hefði auðvitað kosið það og ég kallaði eftir því síðasta haust og í umræðunni um fjárlögin að þetta mál kæmi fram og spurði hvers vegna það væri ekki. Skýringarnar sem ég fékk á því, sem ég tek alveg góðar og gildar, voru einfaldlega þær að mörg erfið og flókin verkefni væru á borðum fjármálaráðuneytisins, og það er varla ofsögum sagt svo að ég segi það nú bara.

Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um að stjórnmálamenn hafi ekki staðið sig vel í þessu. Ég nefndi einmitt dæmi um stjórnmálamenn bæði fyrr og síðar, fjöldinn allur af þingmönnum í þessum sal hefur stutt við þetta verkefni í gegnum tíðina, þingmenn úr öllum kjördæmum vegna þess að menn vita að Landspítalinn er bakhjarl allrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Honum verður aldrei saman jafnað við héraðs- eða umdæmissjúkrahús vegna þess að þetta er sérhæfður spítali, háskólasjúkrahús sem er kennslusjúkrahús, sem getur annast erfiðustu og flóknustu aðgerðirnar. Og allir þeir sem starfa við heilbrigðisþjónustu úti um land vita hversu mikilvægt það er að hafa Landspítalann.

Ég vil aðeins nefna að það er rétt að fjármunir hafa verið settir í verkefnið á þessu kjörtímabili, alveg frá árinu 2010 þegar frumvarpið var samþykkt. En það hefur verið gert samkvæmt heimild í fjárlögum. Það skiptir ekki máli hvort greinin heitir 6. gr. eða eitthvað annað, greinin er hluti af fjárlögum og þar með fjárlög.