141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, ekki síst í ljósi hennar síðustu orða, hvort hún geti ekki verið mér sammála um að það frumvarp sem liggur fyrir feli í sér töluvert mikla breytingu varðandi fjármögnun þess verkefnis sem við erum að ræða. Er ekki um að ræða ákvörðun á allt öðrum forsendum en áður var gert ráð fyrir? Er það ekki rétt hjá mér að í nóvember sl. hafi hæstv. ríkisstjórn tekið ákvörðun um að breyta gersamlega út frá fyrri áformum um fjármögnun þessa verkefnis, taka nýja ákvörðun um hvernig ætti að standa að því og þetta frumvarp sé flutt í kjölfar þess? Það hygg ég vera. Ég hygg að í minnisblaði ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember, ef ég man rétt, hafi komið fram ákvörðun, ný ákvörðun, um fjármögnun þessa verkefnis og þetta frumvarp sé flutt til þess að fylgja því eftir.

Burt séð frá árafjölda og öðru þess háttar verð ég að leyfa mér að benda á að ef það gengur eftir sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lagði upp með í ræðu sinni, að þetta mál verði klárað áður en þingið fer heim, málið verði klárað í 1., 2. og 3. umr. og nefndarstörfum þess á milli, þá erum við að reikna í málið um tvær til þrjár vikur miðað við starfsáætlun þingsins. Ég spyr: Af hverju ætti þingið að geta klárað málið á svona skömmum tíma fyrst það hefur tekið ríkisstjórnina og fjármálaráðuneytið þrjá mánuði frá því sú ákvörðun um stefnubreytingu var tekin að koma með frumvarpið inn í þingið? Ákvörðunin var tekin 30. nóvember, hún var kynnt þá. Frumvarpið kemur inn í þingið 24. eða 25. febrúar. Mundum við telja það ofætlan að þingið þyrfti álíka langan tíma og ríkisstjórnin til að fjalla um málið?