141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Af hverju ætti Alþingi ekki að geta afgreitt þetta einfalda mál? Við erum ekki að tala um flókna leiguleið. Við erum ekki að tala um flókinn samstarfssamning við 25 lífeyrissjóði. Við erum ekki að tala um að útvista þessu verkefni og gera samning um hvernig Landspítalinn með hagræðingarkröfu greiði leigu á 40 ára tímabili. Við erum ekki að tala um hvernig hægt sé að semja við fjármögnunaraðila, banka eða lífeyrissjóði um veðbönd á löndum, lóðum og húseignum sem spítalinn er í. Nei, þetta er ósköp einfalt. Þetta er miklu, miklu einfaldara en allt það.

Þetta er einfaldlega þannig að við erum að ákveða að fara í opinbera framkvæmd. Og eins og ég sagði áðan, herra forseti, ef það er eitthvað sem við þekkjum hér mætavel þá eru það lögin um opinbera framkvæmd. Þau þýða að Alþingi fær á hverju ári málið inn til sín til að fara í fjárveitingarnar.

Hæstv. ráðherra rakti þær breyttu forsendur sem nú ríkja og fór vandlega yfir það hvers vegna menn telja hagkvæmara að gera þetta núna svona en áður var. Og vegna þess að hv. þingmaður nefndi yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 30. nóvember sl. vil ég vekja athygli á því að í ræðu minni benti ég á að það hafi legið fyrir allt frá síðasta vori eða sumri að farið yrði í opinbera framkvæmd með þetta. Það hefur ekki verið neitt launungarmál. Það voru mér mikil vonbrigði, og kom fram í ræðu minni áðan, að málið kom ekki fyrr inn. En það er komið inn, ég fagna því, það er vel unnið og sem betur fer höfum við nægan tíma til að taka ákvörðun um að setja þetta í opinbera framkvæmd. Það væri svolítið flóknara ef við værum á sama stað og við vorum 2010 og værum að setja þetta í samstarfsframkvæmd.