141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, við erum þá sammála um að leysa þurfi mörg vandamál varðandi húsnæðismál Landspítalans. En hvernig? Hvernig ætlar hv. þingmaður að leysa þau? Ég hygg að hann (Gripið fram í.) þurfi að svara fyrir það þegar um fimm þúsund starfsmenn Landspítalans spyrja af hverju þingið hafi ekki verið tilbúið til að ljúka málinu hér (BÁ: Af hverju var ríkisstjórnin ekki tilbúin með frumvarpið?) og það þýðir mjög lítið að hafna svona mikilvægu og stóru máli út af einhverjum hefðbundnum pirringi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn geta deilt um af hverju málið er seint fram komið, ég hef gagnrýnt það, en ég ætla að styðja málið. Ég ætla sko svo sannarlega að styðja það þó að það sé seint fram komið. Þó nú væri, þetta er mikilvægt mál.

Það er ekki aðeins, eins og hér hefur verið bent á, að við séum að eyða 3 milljörðum á ári í óþarfarekstrarkostnað með því að reka spítalann á mörgum stöðum svona dreift, heldur stöndum við líka frammi fyrir því að þurfa að setja ómældar fjárhæðir í endurnýjun og viðgerðir á húsnæði þar sem er þvílík húsasótt að helstu sérfræðingar á tilteknu sviði sem vinna á spítalanum fárveikjast þar. Þetta eru náttúrlega hlutir sem við getum ekki gert annað við en að setja peninga í að laga og þá skulum við líka gera það almennilega eins og hér er lagt upp með.

Ég treysti á það að hv. þm. Birgir Ármannsson og aðrir þingmenn í þessum sal séu tilbúnir til að fara í þá vegferð. Ég segi alveg eins og er, herra forseti: Tíminn til að samþykkja það að setja verkefnið í opinbera framkvæmd er ekki of lítill ef hann er talinn í einhverjum sjö dögum. Það er meira en nægur tími.