141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað til að gleðjast yfir því að þetta frumvarp sé komið fram og geri það sem formaður velferðarnefndar. Ég tel það mjög mikilvægt skref fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Ég tel þó mikilvægt í þessari umræðu að halda því til haga að þetta frumvarp er formbreyting eins og kemur fram í heiti þess. Það heitir frumvarp til laga um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

Breytingin felur það í sér að hlutverk félagsins verður þrengra en í núgildandi lögum þar sem ekki er lengur til staðar heimild til að semja um að ríkið taki byggingarnar á langtímaleigu að loknu útboði. Ég gleðst mjög yfir þessari formbreytingu vegna þess að ég tel að bygging nýs Landspítala sé sannarlega opinber framkvæmd og að löggjafinn eigi að meðhöndla hana sem slíka.

Það mikilvæga við byggingu nýs Landspítala er, eins og margir hafa farið yfir á undan mér, að efla höfuðsjúkrahús Íslands og þar með kjarnann í íslenska heilbrigðiskerfinu, bæta starfsumhverfi, útbúa húsnæði sem hentar nýjustu tækjum, bæta aðbúnað sjúklinga með einbýlum sem draga úr sýkingarhættu sem er mjög mikilvægt enda eru sjúklingar almennt veikari nú en þeir voru fyrir áratug eða meira. Sjúklingar eru styttri tíma á sjúkrahúsi og bygging sjúkrahótels í nágrenni við sjúkrahúsið mun létta líf sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Eins og ég hef kannski sagt áður mun húsnæðið búa til boðlega aðstöðu fyrir þá heilbrigðisstarfsmenn sem sérhæfa sig og vilja starfa við aðstæður þar sem þeir geta veitt heilbrigðisþjónustu í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Það er ágætt að minna á að mörg af þeim tækjum sem nú eru nýtt víða í löndunum í kringum okkur er ekki hægt að flytja hingað til lands þar sem húsnæði núverandi sjúkrahúss hefur ekki burðarþol til að hýsa þau.

Hér hefur verið rætt um að þetta er mjög dýrt verkefni. Það kemur fram í greinargerðinni að það mun kosta tæpa 50 milljarða að byggja meðferðarkjarna, rannsóknahús, sjúkrahótel og bílastæðahús. Svo er gatnagerð, hönnun og ýmislegt sem þessi kostnaður tekur til. Þá er ótalinn sá tækjabúnaður sem þarf að kaupa en þyrfti að kaupa engu að síður. Enn fremur er ótalið það viðhald sem þyrfti að fara í ef ekki yrði af byggingu sjúkrahússins. Svo eru ótaldar þær skatttekjur sem ríkið mun hafa af framkvæmdinni og rekstrarsparnaður sem hlýst af því að hafa sjúkrahúsið í hentugra húsnæði og allt að megninu til á einum stað.

Það er líka gott að muna að þótt kostnaðurinn við framkvæmdirnar sé tæpir 50 milljarðar er það minna en sem nemur tveggja ára rekstri sjúkrahússins og aðeins rúmur helmingur af þeim vaxtagjöldum sem við greiðum vegna skulda ríkissjóðs á ári hverju. Þá kemur auðvitað að því að skuldastaða ríkissjóðs er áhyggjuefni og það er ekki einfalt að ráðast í svona byggingu á tímum sem þessum. Það kom hins vegar ágætlega fram í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að fjölmargir heilbrigðisráðherrar eru búnir að fara í gegnum þetta mál og það er mat þeirra flokka sem að því hafa komið að þetta sé nánast nauðsynlegt skref til að tryggja hér hágæðaheilbrigðiskerfi til framtíðar.

Þá vil ég bara ítreka það, frú forseti, að við erum hér að gera formbreytingu á því félagi sem á að halda utan um framkvæmdina en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þarf að fara rækilega yfir allar tímaáætlanir ef þetta frumvarp verður að lögum sem og mögulega áfangaskiptingu verkefnisins með það að markmiði að einstakir byggingarhlutar og byggingaráfangar nýtist eins vel og kostur er núverandi rekstri spítalans, auk þess sem gera þarf áætlun um það hvernig heildarkostnaður við byggingu nýs spítala muni þurfa að skiptast á næstu ár. Fjárlaganefnd næstu þinga mun fjalla um þessar áætlanir. Þessi bygging verður vegna fjárlagavinnunnar vonandi á dagskrá þingsins á næstu árum og þá kemur að því að fjárlaganefnd fari ítarlega yfir allar forsendur og taki ákvörðun um hvað sé rétt og hvort við getum mögulega lagt þessu til það fé sem nauðsynlegt er.